Bauð sofandi í kampavínsveislu

Það þykir merkilegt að konan hafi getað gert þessa flóknu …
Það þykir merkilegt að konan hafi getað gert þessa flóknu hluti í svefni. Reuters

Kona á fimmtugsaldri bauð nokkrum vinum sínum til kampavínsveislu til að létta lundina. Einn galli var þó á gjöf Njarðar, sá að konan var sofandi þegar hún skrifaði og sendi boðsbréfin.

Konan vissi ekki hvað hún hefði gert fyrr en einn af vinum hennar hringdi í hana daginn eftir til að þakka fyrir boðið. 

Fjallað er um sögu konunnar í tímaritinu Sleep Medicine. Þar kemur fram að konan, sem er 44 ára, fór að sofa klukkan 22. Tveimur tímum síðar reis hún upp og gekk inn í næsta herbergi. Þar kveikti hún á tölvu, tengdist við netið og skrifaði tölvupóst til þriggja vina sinna:

„Komdu á morgun til að fá reglu í þetta helvíti. Kvöldverður og drykkir, klukkan 16. Komdu bara með vín og kavíar."

Að sögn blaðsins Daily Telegraph hafa vísindamenn nefnt þessa nýju tegund svefngöngu zzz-tölvupóst. 

Í tímaritinu segja vísindamenn frá háskólanum í Toledo, að það sé merkilegt að konan hafi getað gert þessa flóknu hluti í svefni.  Konunni brá mjög þegar hún sá hvað hún hafði gert og mundi ekkert eftir því. Hún veit ekki til þess að hún hafi áður gengið í svefni. 

Í tímaritinu kemur einnig fram, að maður nokkur í Wales sé vanur því að gera flókna hluti í svefni. Sá heitir Lee Hadwin, er sjúkraliði og málar myndir í fastasvefni. Þegar hann er vakandi hefur hann hvorki áhuga á list né hæfileika til að mála. 

Svefnmyndir Hadwins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert