Tetris sagður draga úr áhrifum áfallastreitu

Tetris er vinsæll leikur.
Tetris er vinsæll leikur.

Það að spila tölvuleikinn Tetris getur dregið úr áhrifum áfallastreitu. Þessu halda breskir vísindamenn fram.

Sjálfboðaliðar tóku þátt í rannsókn vísindamannanna sem sýndu þeim óhugnanlegar myndir. Sjálfboðaliðarnir voru síðan látnir spila Tetris um hálftíma síðar. Þetta kemur fram í vísindaritinu PLoS One.

Að sögn vísindamannanna urðu færri endurlit (e. flashback) hjá þeim sem spiluðu leikinn. Ástæðan sé sú að leikurinn kom í veg fyrir að minningarnar næðu að skjóta rótum. Þetta kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins.

Annar sérfræðingur heldur því hins vegar fram að engin rannsókn geti haft sömu áhrif á fólk og alvarlegur atburður sem gerist í raun og veru.

Áfallastreituröskun (PTSD) tengist oft þeirri lífsreynslu sem fólk verður fyrir á átakasvæðum. Það getur haft áhrif á þá sem hafa lent í skyndilegum og átakalegum atburði.

Endurlit einkenna áfallastreituröskun, þ.e. viðkomandi upplifir skyndilega eitthvað hræðilegt sem hann sá, heyrði eða finnur jafnvel einhverja lykt sem tengist atburðinum.

Rannsóknin, sem vísindamenn við Oxford-háskóla stóðu að, byggir á þeirri meginreglu að það sé mögulegt að breyta því hvernig heilinn býr til minningar um nokkrum klukkustundum eftir að atburður gerðist.

Alls tóku 40 heilbrigðir sjálfboðaliðar þátt í rannsókninni. Vísindamennirnir sýndu þeim kvikmynd þar sem m.a. mátti sjá fólk sem hafði orðið fyrir alvarlegum meiðslum.

Helmingur sjálfboðaliðanna fengu að spila leikinn á meðan hinn helmingurinn gerði ekkert að sýningu lokinni.

Fram kemur að endurlit hjá þeim sem spiluðu Tetris hafi verið áberandi færri en hjá þeim sem gerðu ekkert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert