Facebook: Notendurnir notaðir til markaðsrannsókna

Zuckerberg kynnir markaðsmöguleika Facebook í markaðsrannsóknum í Davos.
Zuckerberg kynnir markaðsmöguleika Facebook í markaðsrannsóknum í Davos. Reuters

Forráðamenn Facebook áforma að falbjóða umfangsmiklar upplýsingar um u.þ.b. 150 milljónir notenda sína til markaðsrannsókna. Markaðskannanir þar sem markhópurinn er mismunandi skilgreindir notendahópar á þessum stærsta samfélagsvef netheima og einstaklingarnir sjálfir hafa skráð um sig margvíslegar upplýsingar fara fram síðar á árinu en viðbúið þykir að þær munu fara mjög fyrir brjóstið á baráttusamtökum fyrir persónuvernd.

Mark Zuckerberg, hinn 24 ára stofnandi og forstjóri  Facebook, sýndi í síðustu viku þátttakendum á efnahagsmálaráðstefnunni í Davos hvernig nota mætti vefsetur Facebook til að gera kannanir hjá fyrirfram skilgreindum notendum vefjarins, að því er fram kemur í breska blaðinu The Guardian.

Hann spurði notendur í Palestínu og síðan Ísrael um ýmsa þætti friðarferlisins og gat sýnt niðurstöðuna fáeinum mínum síðar. Á sama hátt gerði hann könnun hjá meira en 100 þúsund notendum í Bandaríkjunum og spurði hvort þeir teldu aðgerðir Obama til að örva efnahagslífið duga til eða ekki. Tveir af hverjum fimm taldi aðgerðirnar ganga of skammt.

Með því að opna mörguleika á því að fá frá breiðum hópi notenda svör við völdum spurningum á mun skemmri tíma heldur en í hefðbundnum og kostnaðarsömum markaðskönnunum er ekki ósennilegt að dagar þeirra geti verið taldir eða alltént að verulega dagi úr slíkum tímafrekum könnunum.

Auglýsingatækni Facebook gefur auglýsendum nú þegar færi á að velja  hvers konar notendur sjái skilaboð þeirra eftir mismunandi flokkum, svo sem stað, aldri eða kyni. Slíkar upplýsingar eru afar mikilvægar stórum vörumerkjum til að finna út hvað markhópnum finnst um vörumerkið eða keppinautana.

Á síðasta ári hleypti Facebook af stokkunum sérstöku tóli sem gerir auglýsendum kleift að gera könnun á heimasíðum notenda. Þeir geta síðan skoðað hvernig vinir notendanna og aðrir notendur hafa kosið. Könnunin sem getur til dæmis falist í að skoða kvikmyndastiklur og gefa þeim einkunn er nú til reynslu hjá ýmsum stórum fyrirtækum í Bandaríkjunum svo sem AT&T og CareerBuilder.com.

Facebook ræður einnig yfir tóli sem kallast Facebook Lexicon, ekki ósvipuðu Google Trend tólinu, að því leytinu að það gefur notendum færi á að fylgjast með því hvaða mál eru mest til umræðu á Facebook. Meðan Google Trends notar leitarorð sem slegin hafa verið inn á vefsetrið, þá skoðar Facebook Lexcon sýnilegasta hluta upplýsingasíðunnar um notandann, þ.e. vegginn þar sem fólk og vinir þess skiptast á skilaboðum. Til verður gagnagrunnur með leitarmöguleika með tímanum og sýnir hvernig tíðni einstakra orða eða frasa hefur vaxið eða dofnað á skilaboðaveggnum.

The Guardian segir að Facebook Lexicon sýni að fyrirtækið, sem bætir við sig um 450 þúsund nýjum notendum á dag, ráði yfir umtalsverðum gagnagrunni af notendaupplýsingum og hjá því sé þegar til staðar tólin sem geri mögulegt fyrir fyrirtæki að nýta upplýsingarnar til markaðsrannsókna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert