Auglýsingamiðill sem fylgist með áhorfandanum

Þegar fólk horfir á auglýsingu á skjá í Bandaríkjunum er …
Þegar fólk horfir á auglýsingu á skjá í Bandaríkjunum er hugsanlegt að fylgst sé með áhorfandanum. Reuters

Þegar fólk horfir á auglýsingu á skjá í verslunarmiðstöð, líkamsræktarstöð eða matvöruverslun í Bandaríkjunum er hugsanlegt að auglýsingamiðillinn fylgist líka með áhorfandanum. Líkurnar á því eru að vísu ekki miklar en fara vaxandi.

Þróuð hefur verið tækni sem byggist á því að litlum myndavélum er komið fyrir á skjánum eða nálægt honum til að fylgjast með fólkinu sem horfir á hann. Framleiðendur búnaðarins segja að notaður sé hugbúnaður sem geti greint kyn áhorfandans, áætlað aldur hans og í sumum tilvikum greint kynþátt hans. Búnaðurinn getur síðan skipt um auglýsingu á skjánum í samræmi við upplýsingarnar um áhorfandann.

T.a.m. er hugsanlegt að á skjánum birtist auglýsing um rakvélar ef áhorfandinn er karl, dömubindi ef kona horfir á skjáinn, eða um tölvuleiki ef áhorfandinn er unglingur. Jafnvel þótt auglýsingarnar breytist ekki getur þessi tækni verið gagnleg fyrir auglýsendur sem vilja vita að hve miklu leyti auglýsingar þeirra ná til markhópsins.

Búnaðurinn hefur ekki enn verið settur á markað en búist er við að hann verði tekinn í notkun víða í Bandaríkjunum og fleiri löndum á næstu árum. Framleiðendurnir segja að búnaðurinn geti nú greint kyn áhorfendanna í um 85-90% tilvika.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert