Fésbókin vinsæl hjá tölvuþrjótum

Facebook er ein - ef ekki sú vinsælasta - samskiptasíða …
Facebook er ein - ef ekki sú vinsælasta - samskiptasíða á netinu.

Þeim fer sífjölgandi tilraununum til að stela upplýsingum af notendum Facebook samskiptavefsins.  Er fésbókin nú, að sögn sérfræðinga í tölvuöryggismálum, orðin einkar vinsæl meðal tölvuþrjóta enda deila rúmlega 175 milljónir manna þar persónuupplýsingum sínum.  

„Það eru svo margir komnir á þessi samskiptanet að það er orðið hagkvæmt fyrir tölvuþrjóta að gera sér ferð þangað,“ hefur AFP-fréttastofan eftir David Perry, fræðslustjóra hjá tölvuöryggisfyrirtækinu  Trend Micro.

„Tölvuþrjótarnir sjá allt sem þú setur þar inn. Og fólk getur verið að gefa þar upp mjög verðmætar persónuupplýsingar.“

Jafnvel upplýsingar sem virðast einkar sakleysislegar í fyrstu geta reynst tölvuþrjótum hagnaðarvon. Nöfn afa og ömmu og myndir af gæludýrum geta þannig veitt tölvuþrjótum hugmynd um hvernig brjótast megi inn á lokaða reikninga, en það er oft beðið um slíkar upplýsingar til staðfestingar hafi maður gleymt lykilorðinu.

Hakkarar geta þá reynt að koma forriti frá sér inn í gegnum samfélagsnet, til að mynda með röngum skilaðboðum sem virðast koma frá vinahópinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert