Enn reynt að lækna samkynhneigð

Ekkert bendir til þess að hægt sé að lækna samkynhneigð, …
Ekkert bendir til þess að hægt sé að lækna samkynhneigð, þótt enn bjóði sumir upp á slíkar meðferðir

Enn er algengt að boðið sé upp á meðferð gegn samkynhneigð í Bretlandi, þrátt fyrir að engar sannanir séu fyrir því að slíkar meðferðir virki. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem BBC fjallar um í dag.

Aðeins 4% aðspurðra sérfræðinga í könnuninni sögðust tilbúnir að reyna að breyta kynhneigð skjólstæðingsins, en aðspurðir hvort þeir myndu bjóða upp á meðferð til við að halda kynhneigðinni í skefjum svöruðu 17%, einn af hverjum sex, að þeir hefðu einhvern tíma gert það. Meðferð við samkynhneigð virðist því skv. þessu vera jafn algeng í Bretlandi í dag og hún var fyrir nokkrum áratugum síðan.

„Auðvitað ber sérfræðingum að aðstoða skjólstæðinga sem vilja hjálp, en það á að vera byggt á meðferðum sem sannað hefur verið að beri árangur, með því að kynnast vandanum og hjálpa fólki að vinna úr sínum málum,“ hefur BBC eftir Michael King, prófessor við University College London.

„Við vitum núna að tilraunir til að breyta kynhneigð fólks skila sáralitlum árangri og geta jafnvel valdið miklum skaða. Þess vegna þykir okkur það mikið áhyggjuefni að það sé ákveðinn hluti sérfræðinga sem kýs að líta fram hjá þessum staðreyndum - jafnvel þótt þeir hafi ekkert nema gott í huga.“ Rannsakendur í Bretlandi vinna nú að því að setja upp vefsíðu þar sem þeir hyggjast safna saman reynslusögum af slíkum meðferðum alls staðar að úr heiminum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert