Vísindamenn fundu plánetu sem er álíka stór og jörðin

Tölvuteiknuð mynd af því hvernig vísindamenn halda að Gliese 581 …
Tölvuteiknuð mynd af því hvernig vísindamenn halda að Gliese 581 e líti út. AP

Evrópskir stjörnufræðingar segjast hafa fundið plánetu í öðru sólkerfi sem sé álíka stór og jörðin. Þeir segja jafnframt að fundurinn bendi til þess að það séu líkur á því að hafsvæði sé að finna á annarri reikistjörnu. Einn vísindamaður hefur sagt að fundurinn sé „stórmerkilegur“.

Vísindamennirnir segja að þeir hafi ekki aðeins fundið minnstu plánetuna, sem er í öðru sólkerfi (e. exoplanet) og kallast Gliese 581 e, heldur einnig að nágrannastjarnan Gliese 581 d, sem fannst árið 2007, sé á svæði þar sem líf gæti mögulega þrifist.

„Gralið helga í núverandi rannsóknum á plánetum í öðrum sólkerfum er fundur grýttrar reikistjörnu sem líkist jörðinni og er á byggilegu svæði,“ segir stjarneðlisfræðingurinn Michel Mayor, sem starfar við Genfarháskóla í Sviss.

Gliese 581 e er aðeins 1,9 sinnum stærri en jörðin. Aðrar plánetur sem hafa fundist í öðrum sólkerfum eru sagðar svipaðar stórar og Júpíter, sem bandaríska geimferðastofnunin (NASA) segir að sé 1.000 sinnum stærri en jörðin.

Gliese 581 e skammt frá meginhnetti sólkerfisins, þ.e. sólinni, og því of heit til að líf gæti þrifist á henni. Mayor segir hins vegar að þessi uppgötvun - í sólkerfi sem sé um 20½ ljósár frá jörðinni - sé gott dæmi um þann árangur sem hafi náðst í leitinni að öðrum hnöttum sem svipi til jarðarinnar.

Vísindamennirnir komust einnig að því að sporbaugur plánetunnar Gliese 581 d sé á svæði þar sem líf gæti mögulega þrifist. 

Mayor greindi frá þessu á blaðamannafundi sem var haldinn í háskólanum í Hertfordskíri í Bretlandi, en þar er nú haldin svokölluð Evrópuvika í stjörnufræði og geimvísindum.

Stjörnufræðingurinn Stephane Udry segir hins vegar að Gliese 581 d sé mögulega of stór til að vera mestmegnis úr grjóti. Þá telur hann líklegt að þar sé að finna víðáttumikið og djúpt hafsvæði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert