Dregur úr geðlyfjanoktun í Danmörku

mbl.is/Þorkell

Ný dönsk rannsókn sýnir að dregið hefur úr notkun Dana á svefnlyfjum og róandi geðlyfjum. Sérfræðingar segja þó enn of algengt að fólk sé óþarflega lengi á slíkum lyfjum. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Rannsóknin var unnin fyrir Pfizer lyfjafyrirtækið og gerð meðal fólks sem notað hefur slík lyf. Samkvæmt henni hafa 81% þeirra, sem nota slík lyf, notað þau lengur en í fjórar vikur en dönsk heilbrigðisyfirvöld ráðleggja fólki að taka slík lyf í mesta lagi í fjórar vikur í senn.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar hefur notkun svefnlyfja og róandi lyfja minnkað um 9% frá því á síðasta ári. Á þremur árum þar á undan dróst notkun slíkra lyfja einnig saman um 12%.

Anne Mette Dons, læknir danska heilbrigðiseftirlitsins, segir þetta einstakan árangur. „Þó við séum enn langt frá takmarki okkar er mjög gleðilegt að þetta mikill árangur hafi náðst á þetta stuttum tíma, sérstaklega þar sem um er að ræða lyf sem eru ávanbindandi og tengjast oft erfiðum aðstæðum,” segir hún. „Að snúa við þróuninni á þessu sviði jafnast á við það að breyta grundvallarlífsskoðunum.”

31% þeirra sem tóku þátt í rannsókn Pfizer segjast þó hafa neytt slíkra lyfja í eitt ár eða meira og 31% segjast hafa verið háðir þeim í fimm ár eða meira.

Um 300.000 Danir taka um 40 tegundir af slíkum lyfjum en Charlotte Emborg, geðlæknir við Psykiatrisk Hospital í Árósum, metur það svo að um 100.000 þeirra geti ekki  komist af án slíkra lyfja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert