Enn springur iPhone

iPhone 3GS
iPhone 3GS Reuters

Franskur öryggisvörður tilkynnti í dag að hefði orðið fyrir því að skjárinn á símanum hans, iPhone, sprakk. Fékk hann glerbrot úr símanum meðal annars í augun og íhugar hann að höfða skaðabótamál gegn framleiðanda símans, Apple. Er þetta í annað skiptið sem iPhone sími springur í Frakklandi á stuttum tíma.

Yassine Bouhadi, 26 ára gamall öryggisvörður í matvöruverslun í bænum  Villevieille, var að skrifa smáskilaboð síðdegis í gær þegar skjárinn splundraðist. Hann er afar ósáttur og vill fá skýringar á því hvað hafi valdið slysinu. Einungis þrír mánuðir eru síðan hann keypti símann á 600 evrur, 110 þúsund krónur.

Fyrir nokkrum vikum skaðaðist franskur unglingur á auga eftir að iPhone sprakk í andlit hans. Ekki er heldur langt síðan að iPod spilastokkur sprakk í höndunum á ellefu ára gamalli stúlku í Bretlandi.

Í Bandaríkjunum hefur verið greint frá nokkrum sambærilegum tilvikum og hefur meðal annars kviknað í iPodum.

Fyrr á mánuðinum sögðu forsvarsmenn Apple í Evrópu að engin tengsl væru á milli tilviksins í Frakklandi og Bretlandi eftir að Evrópusambandið krafði fyrirtækið skýringa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert