Öll samskipti á netinu geymd

mbl.is/Heiddi

Breska innanríkisráðuneytið hyggst láta verða af áætlunum um að fara fram á það við fjarskiptafyrirtæki að fylgjast með öllum samskiptum á netinu. Á fréttavef BBC, breska ríkisútvarpsins, sagði í gær að ráðherrar í bresku stjórninni hefðu staðfest að þetta stæði fyrir dyrum þrátt fyrir áhyggjur og andstöðu ýmissa hagsmunaðila.

Meðal tillagnanna er að farið verði fram á að fyrirtæki geymi upplýsingar um það hvernig fólk notar félagslega vefi á borð við Facebook.

Í frétt BBC kemur fram að um 40% þeirra, sem innanríkisráðuneytið ráðgaðist við hafi lýst andstöðu við þessar áætlanir, en engu að síður sé stjórnin þeirrar hyggju að uppfæra þurfi eftirlit með samskiptum fólks.

Breska lögreglan og leyniþjónustur hafa þegar lagalegt vald til að hlera samskipti til að vinna gegn glæpum og bregðast við ógnum við þjóðaröryggi. Það vald nær hins vegar einkum til samskipta í gegnum síma, en ekki til allra samskipta á netinu.

Ætlunin er að þeir, sem veita netþjónustu varðveiti upplýsingar um alls konar samskipti á netinu, allt frá spjallrásum til samskipta í tölvuleikjum.

Stjórnvöld ætla ekki að búa sér til sinn eigin gagnabanka, heldur ætlast til þess að fyrirtækin geymi upplýsingarnar. Varðveita á það hverjir áttu í samskiptunum, en ekki innihaldið, það sem sagt var.

Bresk stjórnvöld gera ráð fyrir því að veita tveimur milljörðum punda (415 milljarða króna) í að bæta hlutaðeigandi fyrirtækjum kostnaðinn af að halda upplýsingunum til haga.

Christopher Graham, sem er nokkurs konar umboðsmaður almennings í persónufrelsismálum, kvaðst átta sig á að lögreglan þyrfti á upplýsingum að halda til að stöðva glæpi, en ekki væri þar með sagt að það réttlætti að safna saman upplýsingum um allt, sem færi fram á netinu. „Þessi tillaga þýðir breytingu á sambandinu á milli borgarans og ríkisins,“ sagði Graham. kbl@mbl.is

  • Stjórnvöld ætla ekki að búa sér til sinn eigin gagnabanka · Ætlast er til þess að fyrirtækin geymi upplýsingarnar · Núverandi heimildir ná til símasamskipta en ekki netsins
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka