„Faðir einkatölvunnar“ látinn

Dr. Roberts hlaut þá heiðursnafnbót að kallast faðir einkatölvunnar.
Dr. Roberts hlaut þá heiðursnafnbót að kallast faðir einkatölvunnar.

Dr. Henry Edward Roberts, sem kallaður hefur verið faðir einkatölvunnar og sem jafnframt var lærifaðir þeirra Bill Gates og Paul Allen stofnenda Microsoft í upphafi ferils þeirra, er nú látinn 68 ára að aldri.

Dr. Roberts fann upp Altair 8800, vél sem markaði upphaf aldar einkatölvunnar. Þeir Gates og Allen höfðu samband við Dr. Roberts eftir að þeir sáu umfjöllun um tölvuna hans í tímariti og buðust til að hanna forrit fyrir hana. Forritið hlaut nafnið Altair-Basic og var grunnurinn að fyrirtækinu Microsoft.

„Ed var tilbúinn að taka áhættu með okkur, tvo unga gaura sem voru forfallnir tölvuáhugamenn löngu áður en þær komust í almenna notkun - og við verðum honum að eilífu þakklátir fyrir," segir í yfirlýsingu sem þeir Gates og Allen sendu frá sér í dag eftir að andlát Roberts spurðist út. „Dagurinn sem fyrsti óprófaði hugbúnaðurinn okkar virkaði í Altair tölvunni hans var upphafið að mörgum merkilegum atburðum."

Meðstofnandi Apple, Steve Wozniak, hefur einnig vottað Roberts virðingu sína og segir í viðtali í dag að hann hafi tekið „mikilvæg upphafsskref sem leiddu til alls þess sem við höfum í dag".

Dr. Roberts lést á sjúkrahúsi í gær eftir langa baráttu við lungnabólgu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert