Vöxtur á fyrsta æviári hefur áhrif á þyngd síðar

Í rannsókninni kom fram að börn sem fengu eingöngu brjóstamjólk …
Í rannsókninni kom fram að börn sem fengu eingöngu brjóstamjólk (enga aðra fæðu né þurrmjólk) fyrstu tvo mánuði ævinnar þyngdust ekki eins hratt eins og börn sem fengu brjóstamjólk eingöngu skemur en tvo mánuði. mbl.is/Brynjar Gauti

Eftir því sem börn vaxa hraðar á fyrsta aldursári þeim mun líklegra er að þau séu of þung við 6 og 10 ára aldur. Þetta kemur fram í vísindagrein sem birtist nýlega í tímaritinu Public Health Nutrition. Meðal höfunda greinarinnar eru þær dr. Ingibjörg Gunnarsdóttir og dr. Inga Þórsdóttir, prófessorar í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

Ýmsir umhverfistengdir þættir hafa áhrif á vaxtarhraða ungbarna og má þar fyrst nefna brjóstagjöf. Í rannsókninni kom fram að börn sem fengu eingöngu brjóstamjólk (enga aðra fæðu né þurrmjólk) fyrstu tvo mánuði ævinnar þyngdust ekki eins hratt eins og börn sem fengu brjóstamjólk eingöngu skemur en tvo mánuði.

Heildarlengd brjóstagjafar hafði einnig áhrif á þyngdaraukningu ungbarna á síðar hluta fyrsta árs.

Önnur næring hefur einnig áhrif á vaxtarhraða á fyrsta aldursári. Vel þekkt er að mikil próteinneysla meðal ungbarna tengist hraðari vexti á fyrsta aldursári. Mikil neysla próteinríkra fæðutegunda meðal ungbarna var einnig tengd auknum líkum á ofþyngd meðal barna í íslenskri rannsókn frá árinu 2003.

Niðurstöðurnar voru staðfestar í stórri evrópskri íhlutandi rannsókn, sem nýlega var gerð. Mikilvægi næringar ungbarna í forvörnum gegn ofþyngd og offitu er óumdeilanlegt. Á fyrsta ári er einnig lagður grunnur að mataræði barna og gott næringarástand á þessu mikla þroskaskeiði gríðarlega mikilvægt fyrir framtíðar heilsu einstaklingsins.

Á Norðurlöndum er tíðni brjóstagjafar hærri en víða annars staðar og er mikilvægt að hlúa vel að þeim aðstæðum sem hvetja til almennrar brjóstagjafar. Einnig er nauðsynlegt að huga að eftirfylgni við ráðleggingar um fæðuval eftir að brjóstagjöf lýkur, að því er segir í tilkynningu frá HÍ.

ÞærIngibjörg og Inga starfa á Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskólann og Landspítala. Rannsóknin var unnin í samstarfi við næringarfræðinga og lækna frá Kaupmannahafnarháskóla sem og aðra þátttakendur í norrænu verkefni sem nefnist „Prenatal and Childhood Growth in Relation to Cardiovascular Disease" (the NordNet Study).

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert