Karl lést úr legkrabbameini

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Bandarískur karlmaður á fertugsaldri lést úr legkrabbameini eftir að hafa þegið nýra í líffæragjöf árið 2002. Eftirlifandi eiginkona hans hefur nú farið í mál við spítalann þar sem læknir mannsins vinnur, NYU Langone Medical Center, og krefst skaðabóta fyrir vanrækslu.

Forsaga málsins er sú að maðurinn, Vincent Liew, þurfti á nýra að halda. Hann fékk nýra frá konu sem var með legkrabbamein án þess að vita af því. Þegar veikindi konunnar loks uppgötvuðust ákvað Liew engu að síður að halda nýranu eftir að læknir hans hafði fullvissað hann um að það væru mjög litlar líkur á því að hann gæti fengið sama krabbamein og líffæragjafi hans þar sem hann væri karlmaður.

Að mati Daniel Buttafuoco, lögfræðings eiginkonunnar, á Langone-spítalinn að sæta ábyrgð fyrir að taka stórkostlega áhættu með líf Liews með því að hvetja hann ekki þegar í stað til þess að láta fjarlægja nýrað þegar veikindi líffæragjafans komu í ljós.

Talsmaður spítalans segir að Liew hafi verið upplýstur um áhættuna sem falist gæti í því að halda nýranu og hann hafi því tekið upplýsta ákvörðun sem spítalanum hafi borið að virða. Starfsmenn spítalans hafi fylgst vel með ástandi hans og skimað nýra hans fyrir krabbameini. Þrátt fyrir að allar sýnatökur reyndust neikvæðar fór Liew fljótlega að finna fyrir verk í bakinu og sex mánuðum eftir líffæragjöfina var nýrað fjarlægt aftur. Liew lést aðeins þremur vikum seinna og var dánarmein hans krabbamein sem hann hafði fengið frá líffæragjafa sínum. Ekki er í krufningaskýrslum tekið fram hvers eðlis krabbameinið hafi verið.

„Þetta hefði ekki átt að gerast. En það er ekki hægt að kenna NYU Langone Medical Center um. Þetta er ekki lækninum að kenna. Þetta er ekki Liew að kenna,“ er haft eftir, Robert Elliott, lögmanni spítalans. Tók hann fram að Liew hafi fengið bestu mögulegu læknisaðstoð.

Kimberly Liew, eftirlifandi eiginkona Vincents Liew, krefst þess nú að spítalinn greiði henni rúmlega 3 milljónir bandaríkjadala í bætur.

Liew var ættaður frá Singapore. Hann vann á Hong Kong verslunarskrifstofunni í New York. Hann glímdi við sykursýki frá táningsaldri og þurfti á þriggja vikna fresti að fara í skilun á þriggja vikna fresti. Hann hafði verið á biðlista eftir nýju nýra í fimm ár þegar honum bauðst nýra í febrúar 2002.

Líffæragjafi Liews, Sandy Cabrera, hafði látist úr hjartaáfalli degi áður. „Enginn vissi að hún hefði líka verið með krabbamein,“ segir Michael Daniels, kærasti Cabrera. Nokkrum dögum eftir dauða hennar var framkvæmd krufning og þá fannst krabbamein í legi auk meinvarpa í lungum hennar.

Thomas Diflo, læknir Liew, heldur því fram að hann hafi ekki frétt af niðurstöðu krufningarinnar fyrr en um miðjan apríl. Forsvarsmenn spítalans þar sem krufningin var gerð, St. Luke's Cornwall, vildu ekki tjá sig um málið. Starfsmenn stofnunarinnar sem hafði milligöngu um líffæragjöfina vilja heldur ekki tjá sig.

Þar sem engar rannsóknir eru til sem sýna að krabbamein í legi geti smitast við líffæragjöf segist Diflo hafa tjáð Liew að öruggast væri að fjarlægja nýrað, en jafnframt tekið fram að litlar sem engar líkur væru til þess að Liew gæti þróað með sér krabbameinið.

Fyrir rétti hafa læknasérfræðingar tekist á um það hvort legkrabbamein hafi raunverulega verið banamein Liew eða hvort hann hafi látist úr öðru krabbameini. Allir eru þeir þó sammála um að Liew hafi fengið krabbameinið frá líffæragjafa sínum og það verið banamein hans.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert