Ísjakinn hluti af eðlilegri bráðnun

Vísindamenn segja að risastór borgarísjaki sem brotnaði af Grænlandsjökli nýlega, sé ekki óræk sönnun um hnattræna hlýnun.

Jakinn, sem er 260 ferkílómetrar, eða ferfalt stærri en Manhattan eyja í New York (eða helmingurinn af Reykjanesskaga vestan Kúagerðis), olli miklu áhyggjum þegar hann losnaði frá Petermann jöklinum norðanvert í Grænlandi. Þetta er stærsti jaki sem hefur losnað frá í næstum fimmtíu ár. Það varð til þess að þingnefnd neðri deildar Bandaríkjaþings um orku- og hlýnunarmál kallaði fyrir sig sérfræðinga í þeim málum.

Sérfræðingarnir segja að þessi atburður sé ekki bein sönnun um hnattræna hlýnun. Einn þeirra sagði að þetta væri venjulegur hluti af því ferli þegar jöklar brotna í sundur þar sem þeir renna út í vatn. Andreas Münchow, prófessor við háskólann í Delaware, segir að jafnvel þótt jakinn sé mjög stór sé eðlilegt að svona lagað gerist á fimmtíu ára fresti.

Veðurfarsmælingar hafa aðeins farið fram á þessu svæði síðan árið 2003.

Reuter fréttastofan hefur eftir Edward Markey, formanni þingnefndarinnar bandarísku að verið sé að fremja „glæpi gegn náttúrunni á Grænlandi og Suðurskautslandinu. Og allt mannkynið mun þjást vegna þess ef við fáum ekki tæmandi sönnun á því sem er að gerast, sem leiðir svo til þess að gripið verði til aðgerða.

Vísindamenn hafa sagt að fyrstu sex mánuðirnir á þessu ári hafi verið þeir heitustu sem dæmi eru um.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert