Hvað veldur hruni sandsílanna?

Sandsíli.
Sandsíli. Ljósmynd/Valur Bogason

 Ekki er gott að ráða í ástæður þess að stofn sandsílis hrundi víða um land.  Ýmsar tilgátur eru á lofti um ástæður fyrir hruninu. Var það makríllinn eða sterkari ýsustofn? Flótti loðnunnar? Dularfullir þörungar sem sáust á humargildrum sumarið 2004?

Nýliðun sandsílis brást árin 2005 og 2006 og hefur nýliðun verið léleg síðan þá, nema árið 2007. Uppistaðan í þeim sandsílaafla sem vísindamenn á Hafrannsóknarstofnuninni hafa náð hafa verið síli frá árinu 2007. 

Valur Bogason og Kristján Lilliendahl, líffræðingar hjá Hafrannsóknarstofnuninni, hafa rannsakað sandsílastofnin undanfarin ár. Þeir segja að erfitt sé að benda á eina afmarkaða orsök og telja frekar að þetta sé samspil margra þátt. Helst hefur verið horft til aukins afráns eða umhverfisþátta. 

Sterkari ýsustofn

Kenning: 2003 árgangur ýsu var mjög stór og ýsustofninn í miklum vexti þegar nýliðunarbrestur verður hjá sandsíli en ýsa er þekkt sílaæta og gæti einnig étið egg sandsílis en þekkt er hversu sólgin hún er í síldarhrogn.

Álit: Valur segir að ekki sé hægt að horfa fram hjá hugsanlegum áhrifum af þessum vexti ýsustofnsins. á sandsíli. Hins vegar hafi talsverður hluti af vexti ýsustofnsins orðið fyrir norðan land sem dregur úr áhrifum ýsu á sandsíli fyrir sunnan land. Þegar fæðugögn eru skoðuð þá hefur meðalfjöldi sandsíla í ýsumögum farið smá saman minnkandi frá aldamótum með þeirri undantekningu að nokkur aukningin varð árið 2007. Ef þetta væri eina skýringin á lélegu ástandi sandsílis hefði mátt búast við auknu afráni árin 2005 og 2006 og einnig þyrfti afrán á ungviði sandsílis að hafa minnkað árið 2007, sem er í raun þveröfugt miðað við fæðugögnin. Á þessum tíma voru einnig aðrar fisktegundir í vexti sem þekktar eru fyrir að éta sandsíli eins og lýsa, skötuselur o.fl. Hins vegar eru ekki handbær nægilega góð gögn um afrán þessara og annarra fisktegunda á sandsíli til að hægt sé að slá einhverju föstu um þetta efni.

Minna aðgengi að loðnu sem fæðu

Kenning: Aðgengi að loðnu minnkaði og þess vegna var sílið étið upp.
Álit: „Ég tel að þetta sé ólíklegt,“ segir Valur. Fiskur er að éta mest af fullorðinni loðnu þegar hún gengur suður fyrir land í febrúar og mars. Hún hrygnir fyrir sunnan- og vestan land en síðan rekur loðnuseiðin að stórum hluta vestur og norður fyrir land og ungloðnu er að finna fyrir Norðvesturlandi og Norðurlandi. Eftir aldamótin breyttist útbreiðsla ungloðnu og fannst minna af henni á þessum hefðbundnu slóðum fyrir norðan og sum ár ekkert, sem hefur haft áhrif á fæðuframboð fyrir Norðurlandi. Það komi vissulega fyrir að fiskar og sjófuglar nái í ungloðnu við Suðurland en það sé frekar fátítt og loðna er ekki uppistaðan í fæðu fiska og fugla fyrir sunnan land stærstan hluta ársins.

„Á meðan hrygningarganga loðnu gengur yfir er sílið í vetrarástandi og liggur að mestu grafið í sandinn, en fer af stað þegar það fer að vora. Af þeim sökum getur fiskur ekki bætt sér það upp með sandsíli nema að mjög takmörkuðu leyti ef lítið gengur af loðnu með Suðurlandi í febrúar og mars, “ segir Valur.

Makríllinn étur sílið

Kenning: Makríllinn, ný tegund á Íslandsmiðum, étur sílið.

Álit: Valur segir að vissulega éti makrílsstofninn mikið magn. Uppistaðan í fæðu hans sé hins vegar áta og frekar lítið hefur fundist af síli í mögum makríls hér við land. Það getur þó að hluta skýrst af slæmu ástandi sandsílastofnsins því þekkt er að makríll éti sandsíli. Þar að auki varð hrunið í sílastofninum áður en makríll fór að láta á sér kræla að verulegu marki á grunnslóð. Líklega veldur koma makríls auknu afráni á sandsíli en einnig kemur til aukin samkeppni um fæðu við sílið og má nefna þetta sem dæmi um óbein áhrif umhverfisbreytinga.

Þörungar ollu súrefnisskorti hjá sandsílunum

Kenning: Sú tilgáta hefur komið fram á bryggjunum í Vestmannaeyjum að hrun í stofni sandsílis við eyjarnar megi kenna miklum blóma þörunga í hafinu síðsumars 2004. Mikill þéttleiki þörunganna við botninn hafi síðan hafi komið í veg fyrir að sílin niðurgrafin í botninn fengju súrefni.

Álit: „Við fengum ekki upplýsingar um þetta fyrr en löngu seinna og fengum aldrei sýni af þessum þörungum og vitum því ekki hvað þetta var,“ segir Valur. „Sú tilgáta að þörungar hafi kæft sandsílin er ekki verri en margar aðrar en við höfum ekkert í höndunum sem getur staðfest hana,“ segir Valur. Ef þörungar í miklum þéttleika leggjast á botninn er hins vegar voðinn vís fyrir sandsílin. „Þau verða að geta andað í sandinum og ef þau geta það ekki þurfa þau að leita upp í sjó þar sem afræningjar bíða þeirra,“ segir hann.

Dragnótin drepur

Kenning: Dragnótin raskar botninum, búsvæði sandsílis.

Álit: „Það eru sumir harðir á að dragnót sé orsakavaldurinn. Hún hefur örugglega einhver áhrif og sandsíli kemur til dæmis oft ánetjað í dragnótina og áhrif tógsins á síli hefur lítið verið kannað. Við teljum þó að ekki sé hægt að benda á dragnótina sem orsakavald á núverandi ástandi sandsílastofnsins. Til að svo megi vera þyrfti sókn með dragnót að sveiflast í takti við breytingar á stofnstærð eða nýliðun hjá sandsíli. Tiltæk gögn styðja ekki þessa kenningu þar sem sókn með dragnót hefur verið tiltölulega stöðug frá síðustu aldamótum. Þá má benda á að hrunið í stofni sandsílis verður bæði á svæðum þar sem dragnótaveiðar eru leyfðar og bannaðar,“ segir Valur. Sé dragnótinni um að kenna hefði hrunið í sandsílastofninum átt að gerast mun fyrr.

Trollið tekið um borð í Dröfn RE.
Trollið tekið um borð í Dröfn RE. Ljósmynd/Valur Bogason
Kristján og Ásgeir stýrimaður um borð í Dröfn láta botngreipina …
Kristján og Ásgeir stýrimaður um borð í Dröfn láta botngreipina fara. Ljósmynd/Valur Bogason
Sandsílaplógurinn gerður klár.
Sandsílaplógurinn gerður klár. Ljósmynd/Valur Bogason
Góður sandsílaafli.
Góður sandsílaafli. Ljósmynd/Valur Bogason
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert