Ekki vitað hvar geimrusl lendir

Enn er ekki vitað hvar brot úr gervihnetti, sem er á leið inn í lofthjúp jarðar, koma til með að lenda. Bandaríska geimferðastofnunin sagði í dag að gervihnötturinn hefði hægt á sér og ekki væri hægt að útiloka að brot úr honum mundu lenda í Bandaríkjunum. 

Búist er við að UARS-rannsóknargervitunglið komi inn í gufuhvolfið í nótt eða fyrramálið. Meðfylgjandi mynd var tekin í síðustu viku en þá náði franskur frístundastjarnfræðingur myndum af hnettinum.  

Hnötturinn er 6,5 tonn að þyngd. Áætlað er að stærstur hluti hnattarins brenni upp þegar hann kemur inn í lofthjúpinn. Samt gætu um 26 brot lent á jörðinni. NASA segir að afar litlar líkur séu á að brotin lendi á fólki.    

Netverjar hafa velt því mikið fyrir sér hvar hnötturinn kunni að lenda. Ítölsk stjórnvöld gripu til þeirra óvenjulegu ráðstafana í dag að hvetja íbúa á Norður-Ítalíu til að halda sig innandyra í nótt  en um 1,5% líkur voru þá taldar á því að brot úr gervitunglinu myndu lenda þar.

Nú er talið líklegt að hnötturinn komi inn í gufuhvolfið á tímabilinu frá 2:30 í nótt til 8:30 í fyrramálið.  Þau brot, sem kunna að lenda á jörðinni, eru talin vega frá 1 kílói til 158 kílóa og þau gætu dreifst yfir um 800 km langt svæði.    

Vefur þar sem hægt er að fylgjast með gervitunglinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert