Tæknilegasta könnunarfar NASA

Mars.
Mars. HO

Nýtt könnunarfar NASA, sem skotið verður á loft á laugardaginn, mun lenda á Mars í ágúst 2012, eftir tæplega níu mánaða ferðalag. Farið er mun stærra og betur útbúið en nokkur forvera sinna.

Könnunarfarið er á stærð við bíl og útbúnaðurinn í því jafnast á við bestu tilraunastofur. Það ber heitið Curiosity (ísl. Forvitni) og er búist við að hátt í 14 þúsund manns mæti á Canaveral-höfða og fylgist með því þegar farinu verður skotið í geiminn.

Curiosity verður með tveggja metra langan arm með áföstum loftbor og leysigeisla sem getur brotið sér leið í gegnum rautt grjótið á Mars. Það sem þykir hinsvegar best við Curiosity er að farið getur greint grjót og jarðveg með meiri nákvæmni en áður hefur þekkst.

„Þetta er draumavél vísindamannsins,“ segir Ashwin Vasavada, sem vinnur á rannsóknarstofu NASA. Þegar Curiosity lendir á Mars mun það leita eftir lífrænum efnum, þ.e. efnum sem innihalda kolefni. „Curiosity verður stærsti og tæknilega flóknasti útbúnaður sem hefur nokkurn tímann verið komið fyrir á yfirborði annarrar plánetu,“ segir Doug McCuistion, stjórnandi rannsóknarleiðangra NASA á Mars. Curiosity er um tvöfalt stærri en síðustu könnunarförin sem send voru á Mars, Spirit og Opportunity, og vegur um eitt tonn.

Áætlað er að þessi leiðangur muni kosta um 2,5 milljarða dollara eða um 300 milljarða króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert