Hófleg röð eftir iPad3

Á að giska 30 manns voru mættir við miðnæturopnun verslunar Epli.is á Laugavegi í kvöld vegna komu nýrrar kynslóðar iPad spjaldtölva. Þegar iPad2 kom til landsins fyrir sléttu ári myndaðist löng biðröð en það virðist ekki eins mörgum kappsmál að koma sem fyrst höndum yfir iPad3.

Verslanir Epli.is í Smáralind og við Laugaveg voru opnaðar kl. 00:01 í kvöld en boðað hafði verið að þeir sem mættu á miðnæturopnun hefðu forgang til kaupa á iPad3, umfram þá sem pöntuðu hana á netinu. 

Mikið æði grípur jafnan um sig um allan heim þegar Apple setur nýjar vörur á markað á borð við iPhone, iPod og iPad enda leggja þeir mikið upp úr markaðssetningu og því að kynda undir væntingum áður en sala á nýjum vörum hefst.

Þegar iPad 2 var kynntur til sögunnar í mars 2011 höfðu 600-700 manns pantað sér eintak og myndaðist löng röð í versluninni við Laugaveg, en aðeins 500 tölvur komu þá í fyrstu sendingu. Fyrirfram var ekki vitað hversu margar iPad3-spjaldtölvur kæmu nú til landsins í þessari fyrstu sendingu.

Þegar ljósmyndari Mbl.is leit inn í Smáralind um klukkan hálftólf í kvöld biðu aðeins tveir utan við verslunina. Þeim hefur þó eflaust fjölgað þegar nær leið opnun. Við verslunina við Laugavegi biðu nokkrir fyrir utan í bílum um kortéri fyrir opnun en þeim fjölgaði nokkuð á miðnætti og að sögn ljósmyndara Mbl.is mættu alls um 30 manns í verslunina. 

Afgreiðslan gekk hratt og vel fyrir sig enda fimm starfsmenn við afgreiðsluborðið og er verið að afhenda síðustu kúnnunum spjaldtölvurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert