Leikur CCP sagður gróðavænlegur

Úr tölvuleiknum Dust 514 frá CCP.
Úr tölvuleiknum Dust 514 frá CCP.

PlayStation Official Magazine hefur valið nýjasta tölvuleik CCP, DUST 514, einn af tíu efnilegustu og gróðavænlegustu leikjum E3 ráðstefnunnar (Electronic Entertainment Expo), sem er stærsta tölvuleikjaráðstefna heims og fer nú fram í Los Angeles. CCP stendur þar fyrir kynningu á leiknum fyrir blaðamönnum – og hafa viðbrögðin verið vonum framar. Ráðgert er að DUST 514 komi á markað síðar í ár fyrir PlayStation leikjatölvur SONY.

Dómnefnd PlayStation Official Magazineer er skipuð ritstjórum margra stærstu fjölmiðla leikjageirans og því ljóst að um er að ræða mikilvæga viðurkenningu fyrir DUST 514 sem og CCP. Leikjavefsíðan IGN, sem er ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum, hefur jafnframt valið DUST 514 einn af bestu skotleikjum ráðstefnunnar. Þar er DUST 514 í hópi leikja á borð við Call of Duty - Black Ops 2, Crysis 3 ogHalo 4 - sem sérfræðingar telja að verði einn stærsti tölvuleikur ársins.

 Í fréttatilkynningu frá CCP segir að viðbrögð blaðamanna í prufum á DUST 514 hafi verið mjög jákvæð, og í fyrstu umfjöllunum fjölmiðla frá E3 sé m.a. talað um að hér sé kominn fram á sjónarsviðið leikur sem feli í sér nýjungar í leikjaheiminum.

 Sú ákvörðun CCP að gefa leikinn út án endurgjalds gegnum PlayStation Network SONY - og vera þar með fyrsti leikur sinnar tegundar til að styðjast við slíkt viðskiptamódel, svokallað „Free to play”, við útgáfu - hefur haldið áfram að vekja mikla athygli. Í umfjöllun Investor’s Business Daily er leikurinn tekinn sem dæmi um hvernig fyrirtæki í leikjaútgáfu leiti nýrra leiða í tekjuöflun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert