Alþjóðlegur stjörnulíffræðiskóli hér

mbl.is/Júlíus

Alþjóðlegur sumarskóli í stjörnulíffræði hefst í kvöld hér á landi á vegum NordForsk, Hawaiiháskóla, NASA Astrobiology Institute og Háskóla Íslands.

Skólinn ber heitið Vatn, ís og uppruni lífs í alheimi. Við hann kenna margir af fremstu vísindamönnum heims á þessu sviði, bæði íslenskir og erlendir.

Á fimmta tug framhaldsnema og ungra vísindamanna frá Evrópu og Norður- og Suður-Ameríku taka þátt í skólanum.

Í kvöldverður boðið upp á fræðsluerindi fyrir almenning af þessu tilefni á Grand Hóteli í Reykjavík. Erindið fjallar um halastjörnur og hefst klukkan 20:30.

Sumarskólinn er skipulagður af Norræna stjörnulíffræðinetinu (Nordic Network of Astrobiology) og samstarfshópi Karenar Meech, stjörnufræðings við Hawaiiháskóla [1]. Skólinn er starfræktur á tveggja ára fresti eða svo á Íslandi (seinast árið 2009) og þess á milli á Hawaii.

Í skólanum fræðast nemendur um myndun vatns í geimnum og hlutverk þess í myndun sólkerfa og lífi á jörðinni. Fjallað verður verður um hvernig vatn barst til jarðar með halastjörnum og loftsteinum og hvernig líf náði að myndast við þær framandi aðstæður sem ríktu á jörðinni í árdaga. Hita- og kuldakærar jaðarörverur og eldvirkni á Íslandi og víðar koma einnig við sögu. Nemendur læra um alla þessa þætti með aðstoð íslenskra og erlendra vísindamanna og vettvangsferðum um íslenska jökla, eldfjöll og háhitasvæði.

Í hópi kennara við skólann eru Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur, Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson jöklafræðingur; James Head, reikistjörnufræðingur við Brownháskóla í Bandaríkjunum (vann m.a. við Apollo leiðangrana á sínum tíma), Karen Meech, sérfræðingur í halastjörnum við Hawaiiháskóla og David Des Marais, jarðefnafræðingur hjá NASA, segir á Stjörnufræðivefnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert