30 börn getin með erfðatækni

Átta vikna gamalt fóstur. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Átta vikna gamalt fóstur. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Reuters

Vísindamönnum í Bandaríkjunum hefur tekist að búa til 30 heilbrigð börn með erfðatækni. Tvö barnanna eru með erfðaefni úr þremur manneskjum.

Það eru vísindamenn við stofnun í New Jersey sem vinnur að rannsóknum á frjósemi sem hafa gert foreldrum kleift að eignast þessi börn. Forstöðumaður þessarar stofnunar er Jacques Cohen.

Konurnar sem leituðu til Cohen þjáðust af ófrjósemi. Galli var í hvatberum eggjanna. Komið var fyrir hvatbera úr eggjum annarrar konu og erfðaefni úr sæðisfrumum.

Cohen er í fremstu röð vísindamanna á sínu sviði. Hann hefur aðstoðað mörg pör sem ekki hafa getað átt börn til að eignast afkvæmi. Hann hefur m.a. hjálpað pörum þar sem eiginmaðurinn er ófrjór til að eignast börn án þess að notast við sæðisgjafa.

Ekki eru hins vegar allir sáttir við það sem Cohen er nú að gera og hann hefur verið ásakaður um að klóna börn.

Lord Winston, frá Hammersmith spítalanum í London, sagði við BBC að hann efist um að það sé þess virði að nýta þessa tækni. Hann segist hissa á að þetta skuli hafa verið gert. Aðgerðir af þessu tagi yrðu ekki heimilaðar í Bretlandi.

Frétt um málið á riseearth.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert