Svona lítur yfirborðið á Mars út

Vel gengur á Mars hjá geimjeppanum Forvitni og er hann farinn að senda ljósmyndir af yfirborði plánetunnar til jarðar. Enn sem komið er eru myndirnar í lítilli upplausn en Forvitni mun á næstu dögum og vikum senda skýrari myndir.

Forvitni hefur í nógu að snúast og safnar ýmsum gögnum, ekki aðeins ljósmyndum af yfirborði Mars. NASA segist mjög ánægð með hvernig til hefur tekist fyrstu dagana.

Á myndunum má sjá berangurslegar sléttur plánetunnar en í fjarska sjást lág fjöll.

„Við fyrstu sýn kemur á óvart hvað yfirborðið virðist líkjast yfirborði jarðar mikið,“ segir  John Grotzinger, einn vísindamannanna sem vinna að verkefninu.

Mikil eldvirkni á Mars hefur skapað landslag sem gæti allt eins verið auðn á hálendi Íslands.

En loftslagið á Mars er vissulega alls ekki líkt því sem við jarðarbúar þekkjum. Þó að eitt sinn hafi runnið vatn um yfirborðið er það núna mjög þurrt. Veturnir eru gríðarlega harðir og þar verða oft mögnuð fárviðri sem blása upp þurrum sandinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert