Umhverfissaga lesin úr botni Lagarins

Rannsóknin byggist á greiningu gagna úr 18 metra löngum setkjarna …
Rannsóknin byggist á greiningu gagna úr 18 metra löngum setkjarna sem tekinn var úr Leginum rétt utan við Egilsstaði.

Ný rannsókn vísindamanna við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands og Lundarháskóla í Svíþjóð leiðir m.a. í ljós að Lögurinn á Austurlandi var án alls jökulgruggs í um 4.500 ár en samhliða kólnun á landinu fór grugg að renna í hann úr Eyjabakkajökli. Rannsóknin varpar einnig ljósi á breytingar á stærð Vatnajökuls á hlýinda- og kuldaskeiðum.

Í tilkynningu frá Háskóla Íslands kemur fram, að rannsóknin, sem hófst árið 2006, byggist á greiningu gagna úr 18 metra löngum setkjarna sem tekinn hafi verið úr Leginum rétt utan við Egilsstaði. Aldursgreiningar með geislakolsaðferð og öskulagaskoðun sýni að kjarninn nái 10.200 ár aftur í tímann. Með greiningu á setgerð og lífrænum leifum í kjarnanum megi lesa umhverfissögu Lagarins og Héraðs með töluverðri nákvæmni aftur til Ísaldarloka. Enn fremur megi lesa úr setkjörnunum bræðsluvatnssögu Vatnajökuls.

„Rannsóknin leiðir meðal annars þá merkilegu niðurstöðu í ljós að eftir að jöklar hættu að hopa fyrir um 10 þúsund árum var Lögurinn án alls jökulgruggs í um 4.500 ár, en þá voru jöklar á Íslandi mun minni en í dag og sumur hlýrri. Samhliða því að aftur fór að kólna á landinu fyrir um 4.400 árum fór austan¬verður Vatnajökull stækkandi, Eyjabakkajökull myndaðist og Jökulsá í Fljótsdal, sem á upptök sín í Eyjabakkajökli, fór að veita jökulgruggi til Lagarins. Eyjabakkajökull var mjög virkur þegar kaldast var á Íslandi og jöklar hvað stærstir á 17.-19. öld. Rekja má framhlaupasögu Eyjabakkajökuls í setkjarnanum,“ segir í tilkynningunni.

Stjórnandi rannsóknarinnar hér á landi var Ólafur Ingólfsson, prófessor í jarðfræði við Háskóla Íslands, en sænskum hluta verkefnisins stýrði Svante Björck, prófessor við jarðvísindadeild Lundarháskóla. Heildarniðurstöður verkefnisins voru kynntar í doktorsritgerð Johans Stribergers við Lundarháskóla en þær hafa einnig verið birtar í alþjóðlegum vísindatímaritum og með fyrirlestrum á ráðstefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert