Reykingar stytta ævina um tíu ár

AFP

Konur sem reykja í dag eru mun líklegri til að deyja vegna fíknar sinnar en konur sem reyktu á sjöunda áratugnum.

Breytt reykingamynstur, s.s. að byrja fyrr að reykja og að reykja meira, er talið hafa aukið hættuna á lungnakrabbameini til muna.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem birt var í New England Journal of Medicine og byggð er á gögnum tveggja milljóna bandarískra kvenna. Í henni kemur fram að dánartíðni kvenna vegna reykinga er svipuð nú og dánartíðni karla.

Í frétt um rannsóknina á vef BBC segir á sjötta og sjöunda áratugnum hafi konur sem reyktu verið í um þrisvar sinnum meiri hættu á að deyja úr lungnakrabbameini en þeir sem ekki reyktu á þeim tíma.

Í dag er allt annað uppi á teningnum. Samkvæmt gögnum um konur á árunum 2000-2010 voru þær sem reyktu 25 sinnum líklegri til að deyja úr lungnakrabbameini en fólk sem ekki reykti.

Stjórnandi rannsóknarinnar, Michael Thun, segir að konur sem reyki í dag séu í meiri hættu á að deyja af þeim völdum en reykingakonur fyrir nokkrum áratugum. Þetta sé staðreynd þrátt fyrir það að konur reyki frekar sígarettur sem merktar eru „mildar“ og sagðar með t.d. minni tjöru en aðrar.

Í frétt USA Today um rannsóknina segir að reykingar stytti líf fólks um að minnsta kosti tíu ár. Sé þeim hætt um fertugt minnki hættan á ótímabæru dauðsfalli vegna reykinga um 90%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert