Meniga hlaut verðlaun á Finovate

Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga.
Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga.

Meniga hlaut verðlaun fyrir bestu tækninýjungina á ráðstefnunni Finovate Europe 2013 sem haldin var í London fyrr í þessum mánuði. Á ráðstefnunni kynntu 64 fyrirtæki tækninýjungar í banka- og fjármálaþjónustu fyrir rúmlega 700 þátttakendum.

Pólski bankinn BRE Bank hlaut einnig viðurkenningu fyrir nýja kynslóð netbanka sem m.a. byggir á lausnum Meniga.

Finovate er ein þekktasta og virtasta ráðstefna heims um tækninýjungar í fjármálaþjónustu og eru verðlaunin „Best of Show“ veitt þeim fyrirtækjum sem talin eru skara fram úr. Meniga hlaut verðlaunin einnig í febrúar 2011.

Í verðlaunakynningunni sýndu Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga og Einar Þór Gústafsson, vörustjóri Meniga, nýjustu farsímalausn fyrirtækisins sem kallast „Að kaupa eða kaupa ekki“. Markmið hennar er að hvetja fólk til að auka sparnað á kostnað skyndikaupa. „Að kaupa eða kaupa ekki“ nýtir ýmsa af kjarnavirkni Meniga kerfisins, eins og útgjaldaspá, sparnaðarmarkmið og neyslugreiningu, til að hjálpa fólki sem er við það að fara að kaupa eitthvað að taka betur ígrundaða ákvörðun.

Meniga tilkynnti einnig um nýjasta viðskiptavin sinn á Finovate ráðstefnunni, pólska bankann BRE bank, en hann hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir metnaðarfyllsta þróunarverkefni á sviði netbankamála í Evrópu. Framtíðarnetbankinn mBank byggir að töluverðu leyti á náinni samþættingu við heimilisfjármálalausn Meniga og þar má auk þess nálgast tilboð og afslætti á vörum og þjónustu svo fátt eitt sé talið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert