Minnsta bók í heimi?

Japanskt prentfyrirtæki sækist nú eftir titlinum minnsta bók í heimi.
Japanskt prentfyrirtæki sækist nú eftir titlinum minnsta bók í heimi. AFP

Bók með blaðsíðum á stærð við nálarauga hefur nú verið prentuð í Japan samkvæmt frétt AFP. Tuttugu og tvær blaðsíður eru í bókinni og á hverja síðu er prentað örsmátt blóm.

Titill bókarinnar er „Shiki no Kusabana“, eða „Blóm árstíðarinnar“ og inniheldur hún nöfn og einlitar myndir af gróðri líkt og kirsuberja- og plómutrjám. Ekki er hægt að lesa bókina með berum augum heldur þarf smásjá til að greina innihald blaðsíðnanna sem eru aðeins 0,75 millímetrar.  

Samkvæmt upplýsingum frá prentfyrirtækinu Toppan Printing eru stafirnir sem notaðir voru í verkið aðeins 0,01 millimetri á breidd en við gerð þeirra var notuð sama tækni og nýtt er við peningaframleiðslu til að koma í veg fyrir fölsun. Fyrirtækið hefur framleitt örsmáar bækur frá árinu 1964.

Að sögn Toppan Printing mun fyrirtækið sækjast eftir titlinum minnsta bók í heimi hjá heimsmetabók Guinness, en núverandi stærðarmet á bók sem gefin var út í Rússlandi og er hún er 0,9 millímetrar.

Bókin er til sýnis í safni útgáfufyrirtækisins í Tókýó og er til sölu ásamt stækkunargleri og stærra eintaki fyrir aðeins 29,400 japönsk jen eða tæpar 40.000 íslenskar krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert