Sad Engineers Studios með besta appið

Sigurliðið ásamt Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, sem afhenti sigurlaunin.
Sigurliðið ásamt Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, sem afhenti sigurlaunin.

Liðið Sad Engineers Studios varð hlutskarpast í samkeppni Háskóla Íslands og Íslenskrar erfðagreiningar um svokallað Íslendingaapp sem lauk í dag. Liðið er skipað þremur nemendum í hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands.

Fram kemur í tilkynningu að í keppninni hafi verið leitað eftir nýjum hugmyndum að notkun Íslendingabókar á snjallsímum og skráðu tólf lið háskólanema sig til leiks. Sex þeirra skiluðu tillögum að appi fyrir tilskildan tíma, á miðnætti miðvikudaginn 10. apríl, og kynntu þau lausnir sínar í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar í dag.

Þá segir að dómnefnd keppninnar hafi verið vandi á höndum enda lausnirnar mjög fagmannlegar og frumlegar. Meðal þess sem horft hafi verið til við mat á öppunum hafi verið frumleiki, útlit og virkni þeirra auk þess sem tekið var tillit til virkni liðanna á samfélagsmiðlum á vinnslutímanum. Þá gafst almenningi kostur á að velja bestu lausnina í sérstakri skoðanakönnun á Facebook-síðu keppninnar og vógu atkvæði almennings jafnt á móti áliti dómnefndar í þeim þáttum sem kosið var um í netkönnuninni.

„Þegar upp var staðið taldi dómnefnd lausn liðsins Sad Engineers Studios besta. Í umsögn dómnefndar um appið kemur fram að hönnun og útlit hafi verið sett fram á skýran hátt, hugmyndir séu einfaldar og vel útfærðar og fagurfræði einföld og vel hugsuð. „Þá hefur lausnin að geyma margar nýstárlegar hugmyndir að nýtingu Íslendingabókar. Uppbygging forrits er skýr og kóði er læsilegur. Kynningin var vel skipulögð og glæsileg,“ sagði einnig í umsögn dómnefndar. 

Liðið skipa þeir Arnar Freyr Aðalsteinsson, Hákon Þrastar Björnsson og Alexander Annas Helgason, nemendur í hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands. Þeir hlutu í sigurlaun eina milljón króna og verður lausn þeirra nýtt sem viðbót við Íslendingabók,“ segir í tilkynningunni. 

Hægt er að skoða appið og ná í það á neðangreindri slóð:

https://play.google.com/store/apps/details?id=is.ses.apps.islendingaapp

Í öðru sæti varð liðið Skyldleikur og í þriðja sæti Hugbúnaðarbúllan. Bæði lið fengu snjallsíma frá Vodafone og LG í verðlaun.

Ættartengslin í lófanum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert