Panda tæknifrjóvguð í Skotlandi

Risapöndur gæða sér á bambus en kæra sig köllóttar um …
Risapöndur gæða sér á bambus en kæra sig köllóttar um að makast og fjölga sér. AFP

Sérfræðingar í dýragarðinum í Edingborg í Bretlandi hafa framið tæknifrjóvgun á pöndunni Tian Tian, eina kvendýri sinnar tegundar í Bretlandi. Ástæða þess að gripið var til þessa var að Tian Tian og félaga hennar Yang Guang tókst ekki að maka sig með náttúrulegum hætti.

Í tilkynningu frá dýragarðinum í dag segir að þrátt fyrir að Yang Guang hafi sýnt mikla viðleitni í rétta átt þá hafi starfsfólk dýragarðsins séð sér þann kost nauðugan að grípa inn á laugardaginn þegar hormónamælingar sýndu að Tian Tian var að ná sínu frjóasta skeiði.

„Tilraunir voru gerðar til náttúrulegrar mökunar. Yang Guan sýndi áhuga og hegðaði sér með hvetjandi hætti, en í ljósi margra ára reynslu taldi kínverskur kollegi okkar, Wang prófessor, að þótt Tian Tian hafi hegðað sér eftir væntingum þá hafi hún líka gefið frá sér skilaboð um að hún myndi ekki taka þátt í mökun.“

Tian Tian og Yang Guang komu til Skotlands frá Kína í desember 2011 en hafa átt í miklum erfiðleikum með að fjölga sér. Ekki kemur í ljós fyrr en um miðjan júlí hvort tæknifrjóvgunin hafi lukkast en reynist Tian Tian þunguð verður þess ekki langt að bíða að örsmár, hárlaus pönduungi komi í heiminn.

Hinar ástsælu pöndur eru mönnum áhyggjuefni um allan heim vegna lítils vilja til að maka sig og fjölga sér. Í dýragarði í Tókýó kom pönduungi í heiminn í fyrra, sá fyrsti í 24 ár í Japan, en hann lést viku síðar úr lungnabólgu.

Náttúrulegt kjörlendi pandabjarna er í suðvesturhluta Kína. Þar eru um 1.600 villtar pöndur og þegar vel gengur maka þær sig á vorin, frá miðjum apríl fram í maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert