Leyndardómur dverglemúrsins afhjúpaður

Crossley dverglemúr í Tsinjoarivo regnskóginum á austurhluta Madagaskar.
Crossley dverglemúr í Tsinjoarivo regnskóginum á austurhluta Madagaskar. AFP/Marina Blanco

Vísindamenn sem rannsaka hina sérstæðu lemúra á Madagaskar hafa lengi velt fyrir sér hvað verður um ákveðna tegund dverglemúra sem hverfa af yfirborði jarðar um nokkurra vikna skeið á vetri hverjum. Nú hafa rannsóknir leitt í ljós að þeir eru einu prímatar heims sem leggjast í hýði neðanjarðar.

Lemúrar eru prímatar af ætt hálfapa og lifa hvergi villtir nema á afrísku eyjunni Madagaskar, þar sem er að finna um 100 mismunandi tegundir þessa sérstaka dýrs. Ein þeirra, dverglemúrinn, lifir á austurhluta eyjunnar.

Töldu að dverglemúrinn hefðist fyrir í trjám

Lífshættir dverglemúranna hafa um margt verið á huldu þar til nú. Vísindamenn fylgdust náið með þeim í allan vetur og í tímaritinu Nature Scientific Reports er sagt frá þeirri uppgötvun þeirra að dverglemúrarnir grafa sig djúpt í jörðu þar sem þeir leggjast í vetrardvala um nokkurra mánaða skeið.

Ekki er vitað til þess að nein önnur tegund prímata leggist í hýði neðanjarðar. Frændur þeirra, lemúrar sem kenndir eru við breiða rófu sína og halda sig í ögn hlýrri og þurrari hlutum regnskógarins á vesturhluta Madagaskar, leggjast hins vegar í dvala í holum trjám um 7 mánaða skeið hvern vetur.

Vísindamenn töldu lengi vel að dverglemúrarnir gerðu slíkt hið sama, en tókst hvergi að finna þá þegar þeir létu sig hverfa yfir veturinn. „Þú kemur hvergi auga á þá og getur hvorki fundið þá né fangað í skóginum yfir þurrasta tíma vetrar,“ segir Marina Blanco, einn höfunda rannsóknarinnar við Hamborgarháskóla í Þýskalandi.

„Eitthvert hlutu þeir að fara...“bætir Blanco við. Vísindamennirnir voru ekki í rónni fyrr en svar fengist svo síðasta sumar voru 12 dverglemúrar á Austur-Madagaskar örmerktir. Svo var bara að bíða og sjá.

Grófu sig niður á lítinn, loðinn bolta

Um háveturinn lögðu vísindamennirnir af stað í leiðangur og áttu von á að finna dverglemúranna, sem eru af tegundunum Sibree og Crossley, sofandi í holum trjám, en annað kom á daginn.

„Við eltum uppi merkið sem þeir sendu frá sér í átt að nærliggjandi tré, en merkjasendingin reyndist koma neðan úr jörðinni. Við héldum fyrst að hálsólin hefði dottið af dýrinu,“ segir Blanco. „Við svipuðumst um en fundum ekkert svo við byrjuðum að grafa og rákumst þá á lítinn, loðinn bolta. Það var dverglemúr sem hafði hringað sig saman og var enn með ólina um hálsinn.“

Dverglemúrar vega ekki nema 250-350 grömm eftir því hvorri tegundinni þeir tilheyra. Þeir grafa sig allt frá 10 cm til 40 cm í jörðu og liggja þar í dvala í 3-6 mánuði. Fátítt er að prímatar leggist í vetrardvala, raunar er frændinn með breiða skottið sá eini sem vitað er til að geri það.

Aukinheldur er fátítt að dýrategundir í hitabeltinu leggist í dvala, það þekkist frekar meðal tegunda á kaldari svæðum eins og ísbjarna, íkorna og broddgalta. Á meðan vetrardvalanum stendur hægist á öllum efnaskiptum og líkamshitinn lækkar.

Yfir vetratímann sveiflast hitastigið á Madagaskar um allt að 30 gráður á Celsius á sólarhring og getur farið niður fyrir frostmark þar sem regnskógurinn stendur hæst yfir sjávarmáli. Vísindamennirnir segja að eftir á að hyggja sé rökrétt að dverglemúrinn grafi sig niður þar sem sjaldan sé frost í jörðu og einangrunin sé betri en í holum trjám.

Crossley dverglemúr í Tsinjoarivo regnskóginum á austurhluta Madagaskar.
Crossley dverglemúr í Tsinjoarivo regnskóginum á austurhluta Madagaskar. AFP
Sibree dverglemúrinn er agnarsmár.
Sibree dverglemúrinn er agnarsmár.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert