Samstaða um orsakir hnatthlýnunar

Niðurstöður nýrrar könnunar sem gerð var á þúsundum rannsókna sem gefnar hafa verið út síðastliðin 21 ár sýna „yfirgnæfandi“ og vaxandi samstöðu meðal vísindamanna um að mannkynið beri langmesta ábyrgð á hlýnun jarðar. Um 97% rannsókna á tímabilinu komust að þeirri niðurstöðu.

Þessar niðurstöður stangast á við þá almennu skoðun að deilur ríki innan vísindasamfélagsins um ástæður hlýnunarinnar. Sú skoðun hefur síðan aftur áhrif á tilraunir til að fá stuðning við stefnumörkun í loftslagsmálefnum, samkvæmt höfundum könnunarinnar, en þeir birtu niðurstöður sínar í tímaritinu Environmental Research Letters. 

Vísindamenn frá Bandaríkjunum, Ástralíu og Kanada skoðuðu yfir 4.000 vísindarannsóknir sem gerðar höfðu verið frá 1991 til 2011, þar sem afstaða var tekin til þess hvort að mannkynið bæri ábyrgð á hnatthlýnun. Meira en 10.000 vísindamenn voru skrifaðir fyrir rannsóknunum. Niðurstöðurnar voru skýrar, rétt yfir 97% sögðu að hnatthlýnun væri af mannavöldum. Þá fór fjölda þeirra sem töldu aðrar útskýringar líklegri fækkandi eftir því sem leið á tímabilið til skoðunar.

Til samanburðar segja skoðanakannanir sem gerðar voru í Bandaríkjunum frá 1997 til 2007 að um 60% almennings telji að vísindamenn séu ósammála um ástæður hlýnunarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert