53 doktorar á einu ári

53 doktorar á einu ári
53 doktorar á einu ári

Alls hafa 53 doktorar varið ritgerðir sínar við Háskóla Íslands á síðustu tólf mánuðum og hafa aldrei verið fleiri.

Doktorarnir tóku við gullmerki háskólans á hátíð brautskráðra doktora sem haldin var í þriðja sinn í Hátíðasal Aðalbyggingar í dag, fullveldisdaginn 1. desember.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var meðal gesta við athöfnina og ávarpaði hann nýdoktorana í tilefni dagsins. Þá flutti Erna Sif Arnardóttir, doktor í líf- og læknavísindum, ávarp fyrir hönd brautskráðra doktora.

Á tímabilinu frá 1. desember 2012 til 1. desember 2013 brautskráðust 53 doktorar frá Háskóla Íslands, 28 karlar og 25 konur. Þetta er mesti fjöldi doktora sem brautskráðst hefur á einu ári frá upphafi, en alls hafa 143 lokið doktorsprófi frá skólanum á síðustu þremur árum.

Hópurinn, sem tók við gullmerki Háskóla Íslands í dag, er afar fjölbreyttur og kemur af öllum fræðasviðum skólans og víða að úr heiminum. Meðal doktaranna eru nemendur frá níu þjóðlöndum utan Íslands og fjórum heimsálfum, segir í tilkynningu frá HÍ.

Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu við Háskóla Íslands, sagði á hátíðinni í dag að öflugur rannsóknaháskóli væri frumskilyrði þess að Ísland yrði samkeppnisfært í vísindum, nýsköpun og atvinnuþróun innan þekkingarsamfélags þjóðanna. Grunnrannsóknir væru ein helsta forsenda hagvaxtar og aukinnar velsældar og doktorsnemar við háskólann legðu mikið til þeirra, samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert