900 þúsund ára gömul fótspor

Endurgerð höfuðkúpa Homo antecessor en brot úr henni fundust á …
Endurgerð höfuðkúpa Homo antecessor en brot úr henni fundust á Spáni. Af Wikipedia

Fótspor sem talin eru vera eftir fyrstu forfeður mannsins í Norður-Evrópu fundust á strönd í Norfolk á Bretlandi. Um er að ræða 49 spor sem talin eru vera eftir menn sem gengu um mjúkan sandsteininn fyrir um 900 þúsund árum.

Í frétt Telegraph segir að fundurinn geti umbreytt skilningi vísindamanna á ferðum frummanna.

Fótsporin fundust síðasta sumar er mikill sjógangur skolaði sand ofan af fjörugrjótinu í Happisburgh í Norfolk. Það er þó ekki fyrr en nú sem upplýst er um fundinn.

Mann- og þróunarfræðingar hafa frá því í sumar verið að rannsaka sporin. Þeir telja að þau séu eftir frummann sem kallaður hefur verið Homo antecessor. Ummerki um hann hafa einnig fundist á Spáni.

Talið er að sporin séu eftir að minnsta kosti fimm menn, bæði fullorðna og börn. Hugsanlegt er að þar hafi fyrstu Bretarnir verið á ferðinni. Hingað til hafa ummerki um frummenn aðallega fundist í suðurhluta Evrópu.

Chris Stringer, prófessor við Náttúrugripasafnið í London, sem hefur unnið að rannsókninni á sporunum, segir að hugsanlega hafi þeir menn sem gengu um strendur Norfolk fyrir um 900 þúsund árum verið skyldir þeim sem héldu til á Spáni.

„Þetta fólk hefur verið álíka hávaxið og við,“ segir við Telegraph. „Það virðist hafa dáið út í Evrópu fyrir um 600 þúsund árum.“ Um 200 þúsund árum síðar kom svo Neanderthals-maðurinn fram á sjónarsviðið. Það er svo ekki fyrr en fyrir um 40 þúsund árum að nútímamaðurinn kom fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert