Apple loks komið til Suður-Ameríku

Löng röð myndaðist fyrir utan nýjustu verslun Apple
Löng röð myndaðist fyrir utan nýjustu verslun Apple Mynd/EPA

Í gær opnaði Apple sína fyrstu verslun í Suður-Ameríku. Verslunina er að finna í Rio de Janeiro í Brasilíu og lögðu 1700 manns leið sína í verslunina strax fyrsta daginn. 

Markaðsstaða Apple hefur farið versnandi í Suður-Ameríku undanfarið og er opnun verslunarinnar liður í því að bæta úr því. Tollar á farsíma í Brasilíu eru með þeim hæstu í heiminum og það endurspeglast í verðinu. iPhone 5S með 16 gb minni kostar 649 dali í Bandaríkjunum en 1174 dali í Brasilíu. Til samanburðar kostar sími keppinautarins, Samsung Galaxy S3 í kringum 300 dali í Brasilíu. Farsímamarkaðurinn í Suður-Ameríku er fjórði stærsti farsímamarkaður í heimi og því leggja símaframleiðendur mikið upp úr því að auka hlutdeild sína þar. Árið 2012 var Apple með 9% markaðshlutdeild en Samsung 44%. 

Apple hefur einnig til athugunar möguleikann á að hefja framleiðslu á símanum í Brasilíu til þess að komast hjá tollunum og lækka þannig verð hans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert