Gagnrýni siðfræðinga vekur furðu

Frá höfuðstöðvum Íslenskra erfðagreiningar.
Frá höfuðstöðvum Íslenskra erfðagreiningar. mbl.is/Rósa Braga

Á fjórða tug vísindamanna segja að athugasemdir og gagnrýni siðfræðinga og nokkurra annarra fræðimanna við lífsýnasöfnun Íslenskrar erfðagreiningar veki furðu og bæta við að margt í athugasemdum þeirra standist ekki. Þá sé gagnrýni þeirra á hlut Landsbjargar í söfnuninni ómakleg.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem vísindamennirnir hafa sent á fjölmiðla vegna Útkalls í þágu vísinda í kjölfar yfirlýsingar siðfræðinga og nokkurra annarra fræðimanna.

Vísindamennirnir segja, að síðastliðin 17 ár hafi vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) í samstarfi við vísindamenn á Landspítala, í læknadeild og innan fjölmargra annarra stofnana hérlendis og erlendis náð ótrúlegum árangri í að varpa ljósi á erfðafræði margra sjúkdóma. Vísindagreinar í bestu vísindaritum beri því ótvírætt vitni.

„Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þetta samstarf vísindamanna ÍE og annarra í íslensku vísindasamfélagi hefur gert það að verkum að Ísland leiðir nú heiminn á flestum sviðum mannerfðafræði. Þessi árangur byggist ekki síst á miklum stuðningi almennings við þessar rannsóknir, ekki bara í orði heldur með beinni þátttöku. Slík þátttaka sýnir í verki hug fólksins í landinu til þessara rannsókna. Áframhaldandi stuðningur og þátttaka landsmanna er nauðsynleg til þess að við höldum forskoti á þessu mikilvæga sviði lífvísinda,“ segir í yfirlýsingunni.

Vísindamennirnir segja, að athugasemdir og gagnrýni siðfræðinga og nokkurra annarra fræðimanna við þetta átak Íslenskra erfðagreiningar vekur furðu og margt í athugasemdum þeirra standist ekki.

„Um engar rannsóknir í íslensku samfélagi hefur verið meira rætt á síðustu áratugum en erfðarannsóknir ÍE. Umræðan hefur verið efnismikil, og sjónarmiðum allra aðila hafa verið gerð skil,“ segir í yfirlýsingunni. 

Þá segir, að gagnrýni siðfræðinga á hlut Landsbjargar í söfnun sýnanna „er að okkar mati einnig ómakleg. Alvanalegt er í vísindarannsóknum að þátttaka sé þökkuð, en hún á þó ekki að skapa óeðlilegan þrýsting á þá sem annars myndu ekki vilja gefa lífsýni. Við treystum almenningi til að geta tekið upplýsta ákvörðun um þátttökuna. Mikil þátttaka Íslendinga í vísindarannsóknum er byggð á áralangri umræðu um tilgang og eðli slíkra rannsókna. Fólk er almennt upplýst og tekur eigin ákvarðanir. Við viljum hvetja fólk til að halda áfram þessum mikla stuðningi við framþróun í vísindum. Án hins almenna borgara verða þessar rannsóknir ekki gerðar,“ segir ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert