Töfrateningurinn fjörutíu ára

Rúbiks kubburinn víðfrægi var skapaður árið 1974 af ungverska arkitektinum …
Rúbiks kubburinn víðfrægi var skapaður árið 1974 af ungverska arkitektinum Ernõ Rubik.

Fjörutíu ár eru í dag frá því að Ungverjinn Ernõ Rubik fann upp töfrateninginn (e. Rubik's Cube), þótt hann hafi ekki fengið einkaleyfið fyrr en sex árum síðar. Í tilefni af þessum tímamótum má reyna sig við töfrateninginn á forsíðu leitarvélarinnar Google.

Þegar þrjátíu ár voru frá því töfrateningurinn kom á markað var rituð um hann grein í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og vitnað í viðtal við Ernõ Rubik. Þar lýsir hann ánægju sinni með útbreiðslu uppfinningar sinnar, ekki vegna þess að hún hafi fært sér frægð og frama heldur vegna þess að hann er stoltur af því að hafa skapað hlut sem hafi glatt fólk úti um allan heim.

„Teningurinn er uppfullur af mótsögnum,“ segir Rubik, „hann er efnislegur, handvirkur og áþreifanlegur; þetta er sakleysislegur og barnalegur hlutur. Samt þarftu að beisla óreiðuna til að leysa þrautina. Teningurinn er í senn einfaldur og flókinn. Spurningin er skýr en svarið snúið.“

Þá segir að það séu 43.252.003.274.489.856.000 mögulegar samsetningar. Það þýði að menn geti reynt að leysa þrautina einu sinni á klukkustund á hverjum einasta degi lífs síns án þess að fara nokkru sinni sömu leiðina. og sumum mun aldrei takast að leysa þrautina enda þótt þeir verði eitt hundrað ára en aðrir láta sér nægja nokkrar sekúndur.

Heimsmetið á Hollendingur, Mats Valk að nafni, en hann þurfti ekki nema 5,55 sekúndur til að mynda litablokkir á öllum hliðum teningsins á móti í Belgíu í fyrra.

Hér má lesa um Rubik's Cube á Wikipedia

Opinbert vefsvæði Rubik's Cube

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert