Tvöfalt meiri bráðnun en talið var

Bráðnun íss á suðurheimskautinu er tvöfalt meiri í dag en hún var við síðustu mælingu, en um það bil 160 milljarðar tonna af ís hverfa nú í hafið á ári hverju.

Vísindamenn hafa farið yfir niðurstöður sem gervihnötturinn Cryosat, sem Evrópska geimrannsóknastofnunin (ESA) skaut á loft árið 2010. Um borð í Cryosat er ratsjárbúnaður sem er sérstaklega hannaður til að meta þykkt íshellunnar. 

Fjallað er um málið á vef breska ríkisútvarpsins.

Þar segir, að rannsóknin hafi leitt í ljós að bráðnunin sé nægilega mikil til að hækka yfirborð sjávar sem nemur 0,43 mm á ári. Þá segir að niðurstöðurnar hafi verið birtar í vísindaritinu Geophysical Research Letters.

Í nýju rannsókninni eru teknar saman þrjár mælingar sem voru gerðar á árunum 2010 til 2013 og jafnframt eru uppfærðar mælingar annarra gervihnatta á árunum 2005 til 2010.

Fram kemur í frétt BBC, að Cryosat hafi notað hæðarmæli til að fylgjast með þykkt íshellunnar, en hún verður þykkari þegar snjór fellur og hún skreppur saman er hún bráðnar.

Skýrsluhöfundar skipta suðurskautinu í þrjá hluta, vestur-suðurskautið, austur-suðurskautið og suðurskautsskagann, sem er sá hluti sem teygir sig í áttina til Suður-Ameríku. 

Rannsókn Cryosat hefur leitt í ljós að ís sé að bráðna á öllum þessum svæðum. Að meðaltali er íshellan í heild sinni að þynnast um tvo sentímetra á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert