25 þúsund manns gegn Facebook

Max Schrems höfðar nú mál gegn Facebook í annað sinn.
Max Schrems höfðar nú mál gegn Facebook í annað sinn. AFP

Austurríkismaðurinn Max Schrems segir að 25 þúsund manns hafi gengið til liðs við hann í hópmálsókn gegn Facebook. 

Schrems krefst 500 evra í skaðabætur frá fyrirtækinu, en hann segir kröfuna vera táknræna fyrir „þann langa lista meintra brota fyrirtækisins á friðhelgi hans.“ Nefnir hann þar meðhöndlun Facebook á persónuupplýsingum notenda sinna, meinta þátttöku fyrirtækisins í PRISM-forriti Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna og njósnir þess um hagi notenda sinna í gegnum Like-hnappinn.

Schrems höfðaði málið í Vínarborg í síðustu viku og leyfði öðrum notendum að skrifa undir málsóknina með sér. Um 7 þúsund manns undirrituðu kæruna á dag fyrstu dagana svo að Schrems ákvað að takmarka hópinn við 25 þúsund manns. Þeirri tölu hefur nú verið náð.

„Með svona stórum hópi fólks er ekki um smávægar kvartanir að ræða, heldur getum við virkilega þrýst á Facebook að gera eitthvað í sínum málum,“ segir Schrems í yfirlýsingu á vefsíðu hópsins www.europe-v-facebook.org.

Málið er höfðað gegn skrifstofum Facebook í Írlandi, sem sér um starfsemi fyrirtækisins utan Bandaríkjanna. Þar gilda aðrar reglur en gilda vestanhafs, en Facebook í Írlandi þarf að framfylgja reglum Evrópusambandsins er varða verndun gagna. Talið er að reglurnar séu strangari en þær sem gilda í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert