Sáu ekki sjónvarp vegna bilunar

Sjónvarp Símans var óaðgengilegt um tíma.
Sjónvarp Símans var óaðgengilegt um tíma.

Miðlæg bilun varð í netþjónum fyrir Sjónvarp Símans sem olli því að þeir sem kveiktu á myndlyklum sínum nú upp úr klukkan 18 í kvöld sáu ekki sjónvarp í um fjörutíu mínútur. Aðrir sem höfðu kveikt á þeim gátu sem fyrr horft án vandkvæðna.

„Sérfræðingar Símans vinna nú að viðgerð. Þeir hafa komið sjónvarpsútsendingunum í gang og stefna að því að koma dagskrárupplýsingunum sem fyrst aftur inn, svo hægt sé að nota Tímaflakkið. Þegar viðgerð lýkur verður sem fyrr hægt að horfa á sjónvarpsdagskrána 24 klukkustundir aftur í tímann,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans.

„Við biðjum þá sem fundu fyrir biluninni innilega afsökunar og hvetjum áskrifendur til að endurræsa ef þörf er á,“ segir Gunnhildur.

Uppfært klukkan 21:30

Um klukkan 19 tók bilunin sig upp hjá ákveðnum hópi viðskiptavina en laust eftir klukkan hálfníu voru allir viðskiptavinir komnir með sjónvarpsþjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert