Skera upp herör gegn smelliveiðum

Merki facebook.
Merki facebook. AFP

Samfélagsmiðillinn Facebook tilkynnti í kvöld að fyrirtækið myndi skera upp herör gegn því sem á ensku kallast „click-baiting“, og mætti þýða sem „smelliveiðar“ á íslensku. 

Smelliveiðar má lauslega skilgreina sem þá iðju að deila fréttum á samfélagsmiðlum með mjög krassandi fyrirsögnum, sem þó segja lítið sem ekkert um efni fréttarinnar, en fá fólk til að smella á fréttina til að komast að innihaldinu, sem í mörgum tilvikum þykir mjög rýrt.

Í pistlinum segir að Facebook hafi lagt könnun fyrir fólk, sem í 80% tilvika segist frekar vilja að fyrirsögn fréttar eða efnis á samfélagsmiðlunum sé lýsandi frekar en grípandi, og myndi því hjálpa viðkomandi í að ákveða hvort hann hefði áhuga á að lesa efnið.

Smelluveiðaefni hefur hins vegar að sögn Facebook tekist að kaffæra gott efni sem annars myndi birtast á fréttaveitu Facebook-notenda.

Til að vinna gegn þessu ætlar Facebook að kanna hversu löngum tíma fólk ver á þeim síðum sem það fer inn á gegnum Facebook. Ef viðkomandi smellir á fyrirsögn, og kemur síðan strax aftur inn á Facebook, þá bendir það til þess að það sem smellt var á hafi ekki verið það sem notandinn bjóst við. Þannig fréttir munu því fá minna vægi á tímalínum fólks.

Önnur breyting sem stjórnendur Facebook boða er hvernig hlekkjum er deilt á Facebook. Þannig kemst Facebook að þeirri niðurstöðu að fólk vill frekar að hlekkurinn, sem vísað er á, sé innifalinn í mynd, t.d. eins og gert er á Facebook-síðu mbl.is, heldur en að hlekknum sé deilt sem hluta af stöðuuppfærslu eða sem texta við mynd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert