Svífur yfir Mars í rúmt ár

Frá yfirborði Mars.
Frá yfirborði Mars. AFP

Ómannað geimfar, sem geimferðarstofnun Bandaríkjanna, NASA, sendi til Mars fyrir um 10 mánuðum síðan, mun hefja ferðalag sitt í kringum plánetuna á sunnudaginn.

Áætlað er að geimfarið muni rannsaka sögu loftlagsbreytinga á Mars næsta árið.

Geimfarið er hluti af verkefninu MAVEN (The Mars Atmosphere and Volatile Evolution), en aldrei áður hefur efra andrúmsloft plánetunnar verið rannsakað. 

Geimfarið mun skoða hvernig Mars, sem var eitt sinn blaut og hlý pláneta, þróaðist yfir í að verða köld og þurr. Stefnt er að því að niðurstöður MAVEN muni hjálpa til við að koma mannfólki á Mars, jafnvel fyrir árið 2030. 

MAVEN hefur ferðast 711 milljón kílómetra síðustu 10 mánuðina. Farið mun yfirleitt svífa í um 6000 kílómetra fjarlægð frá yfirborði Mars næsta árið. Hins vegar mun það taka fimm dýfur niður að yfirborðinu og rannsaka andrúmsloftið í um 125 kílómetra fjarlægð frá yfirborðinu. 

„Með rannsóknarverkefninu MAVEN verður reynt að svara spurningum um hvað gerðist fyrir vatnið og koltvísýringinn sem var í Mars fyrir milljörðum ára síðan,“ sagði Bruce Jakosky, yfir vísindamaðurinn í verkefninu.  

„Þetta eru mikilvægar spurningar sem þarf að svara svo við getum skilið sögu Mars, hitastigsins þar og möguleika plánetunnar til þess að hýsa lífverur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert