iPhone 6 Plus bognar undan álagi

Örlítil beygja á iPhone 6.
Örlítil beygja á iPhone 6. Af Youtube

Nýi iPhone 6 Plus síminn getur bognað ef hann er settur í þrönga vasa í töluverðan tíma. Þetta er meðal þess sem notendur hans hafa kvartað yfir. 

Síminn hefur selst gríðarlega vel en einhverjir notendur hans segja hann viðkvæmari en þeir áttu von á.

Í frétt Sky um málið er m.a. vitnað í einn notanda sem birtir mynd af bognum síma sínum á Twitter. „iPhone 6 getur bognað í vasanaum þínum! Haha, elska þig, Apple.“ Eftir að hann hafði sagt frá þessu bauðst Apple til að láta hann fá nýjan síma. 

Á YouTube má svo finna myndskeið af manni sem tekur þéttingsfast um símann og sést þá móta fyrir beyglu í honum, rétt fyrir neðan takkann sem notaður er til að hækka og lækka.

Á vefsíðunni Cult of Mac er hins vegar sagt að vandamálið sé alls ekki bundið við þennan tiltekna síma. Símar frá öðrum fyrirtækjum, s.s. Sony og Samsung, eigi það einnig til að bogna undan álagi.

Frétt Sky um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert