Tilraun í Tansaníu til að draga úr barnadauða

Dr. Anna Elísabet Ólafsdóttir.
Dr. Anna Elísabet Ólafsdóttir.

Dr. Anna Elísabet Ólafsdóttir, aðstoðarrektor við Háskólann í Bifröst, hefur ásamt teymi alþjóðlegs vísindafólks, fengið birta fræðigrein í tímaritinu BMC Health Services Research. Greinin fjallar um niðurstöður rannsóknar á aðferðafræði sem ætlað er að stuðla að skilvirkara heilbrigðiskerfi og draga úr mæðra- og barnadauða í fátækari ríkjum heims. Heiti greinarinnar er „Pay for performance: an analysis of the context of implementation in a pilot project in Tanzania“.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Fátæk ríki heims eru stöðugt að leita leiða til að bæta heilsu og líðan þegna sinna og alþjóðastofnanir s.s. Alþjóðabankinn leggja sitt af mörkum til að hjálpa. Greinin fjallar um niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar sem gerð var á heilbrigðisþjónustunni í Tansaníu. Til að reyna að draga úr mæðra- og barnadauða var gerð tilraun með að innleiða árangurstengdar greiðslur til heilbrigðisstarfsfólks og heilbrigðisstofnana.

Greinin lýsir því hvernig aðferðafræði sem á teikniborðinu er líkleg til árangurs reynist vanmáttug til að hvetja heilbrigðisstarfsfólk til dáða hafi starfsfólk ekki nauðsynlegan aðbúnað s.s. húsnæði, tæki og lyf. Sem dæmi má taka að um 30% heilbrigðisstofnana sem skoðaðar voru hafa ekki rafmagn, en ein af mikilvægari aðgerðunum til að draga úr barnadauða er að bólusetja börn. Bóluefni þarf að geyma í kæli og ef ekkert er rafmagnið er ekki hægt að eiga bóluefni á lager og þar af leiðandi er ekki hægt að bólusetja börn á réttum tíma.

Í greininni er bent á mikilvægi þess að þeir sem koma að þróunarhjálp með það að markmiði að auka skilvirkni heilbrigðiskerfisins og draga úr mæðra- og barnadauða geri sér grein fyrir mikilvægi þess að nauðsynlegir innviðir séu til staðar áður en farið er af stað með aðferðafræði eins og árangurstengdar greiðslur til heilbrigðisstarfsfólks og heilbrigðisstofnana.

Greinina má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert