Heimskingjar láta taka af sér nektarmyndir

Günther Oettinger
Günther Oettinger AFP

Næsti yfirmaður stafrænna mála hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins var ekkert að skafa ofan af því þegar hann tjáði sig nýverið um fræga fólkið sem hefur orðið fyrir barðinu á tölvuhökkurum sem hafa lekið nektarmyndum af því á netið. Hann segir fólkið einfaldlega heimskt að láta taka slíkar myndir af sér.

Günther Oettinger, sem tekur við sem yfirmaður stafrænna málefna hjá framkvæmdastjórninni, bætti um betu rmeð því að segja að heimska sé eitthvað sem aðeins sé hægt að forða fólki frá að hluta. Oettinger sér ekki neina ástæðu til þess að biðjast afsökunar á ummælum sínum, samkvæmt frétt BBC.

Julia Reda, þingmaður pírata á Evrópuþinginu, á ekki til orð yfir ummæli Oettinger og segir ótrúlegt að hann eigi að fara með stafræn mál hjá framkvæmdastjórninni en hingað til hefur Oettinger farið með raforkumál hjá ESB.

Oettinger lét ummælin falla á fundi í Brussel á mánudag. Þar vísaði hann í myndir sem lekið var á netið af um 80 frægum konum, þar á meðal leikkonunni Jennifer Lawrence og tónlistarkonunni Rihanna.

Reda hefur birt myndskeið af Oettinger þar sem hann lætur þessi orð falla um fræga fólkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert