iPhone 6 til Íslands 31. október

AFP

Margir Íslendingar hafa beðið spenntir eftir að eignast nýjustu snjallsíma Apple, iPhone 6 og iPhone 6 Plus, en Apple greindi frá því á heimasíðu sinni í dag að síminn væri væntanlegur til Íslands 31. október. Þá verður síminn kominn í sölu í 69 löndum víðsvegar um heim.

Apple kynnti símana formlega til sögunnar á kynningu sem fór fram í Cupertino í Kaliforníu þann 9. september sl. Nú þegar hafa milljónir símtækja selst í þeim 33 löndum þar sem iPhone 6 hefur verið í sölu undanfarinn mánuð.

Grikkland, Mexíkó, Króatía, Eystrasaltsríkin, Úkraína og Taíland eru á meðal þeirra landa sem munu einnig fá iPhone 6 í sölu 31. október.

„Við sjáum að áhuginn fyrir þessum símum er jafnvel enn meiri en við upplifðum í fyrra þegar iPhone 5S og c komu á markaðinn. Við fáum fjölmargar fyrirspurnir, finnum að fólk bíður óþreyjufullt og mun fleiri hafa þegar lýst yfir áhuga á að kaupa en við sáum í fyrra. Það eru því frábærar fréttir að Ísland sé komið á kortið hjá Apple,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, í samtali við mbl.is spurð út í fréttatilkynningu Apple.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert