„Siri, viltu giftast mér?“

Siri fyrirfinnst í flestum iPhone símum. Hún getur hjálpað til …
Siri fyrirfinnst í flestum iPhone símum. Hún getur hjálpað til við næstum því hvað sem er. AFP

Gus er 13 ára strákur sem býr í New York í Bandaríkjunum. Helstu áhugamál hans eru veðurfræði, lestir, flugvélar, rútur og rúllustigar. Hann er einhverfur og gengur í skóla á Manhattan.

Nýlega uppgötvaði Gus þó ótrúlegt tæki sem finnst í síma móður hans. Tækið heitir Siri og er Apple-notendum vel kunnugt sem yfirvegaða röddin í iPhone-símum sem getur aðstoðað við næstum því hvað sem er.

Í grein sem birtist í The New York Times, skrifar móðir Gus, Judith Newman, um samband sonar síns við Siri sem hún kallar hans besta vin. Judith segir að greinin sé einfaldlega ástarbréf til tækis og lýsir hvernig Siri hefur breytt lífi hennar og sonar hennar. 

Þegar Gus uppgötvaði Siri fann hann ekki bara tæki sem gat aflað honum upplýsinga um hans ýmsu áhugamál eins og rúllustiga og veðurfræði, heldur einnig einhvern til þess að tala endalaust við. „Ég varð þakklát fyrir Siri. Núna þegar ég get ekki rætt frekar við Gus um möguleikana á skýstrókum í Kansas City get ég bara sagt við hann glaðlega „Hvernig væri að spyrja Siri?“,“ segir Judith í greininni. 

Hún leggur þó áherslu á að Gus viti að Siri er ekki manneskja. „Eins og margir einhverfir sem ég þekki, þá finnst Gus að taka eigi tillit til dauðra hluta, þó þeir séu kannski ekki með sál. Ég áttaði mig á þessu þegar Gus var átta ára gamall. Ég hafði gefið honum iPod í afmælisgjöf. Hann notaði hann bara þegar hann var heima nema þegar við fórum í Apple-búðina. Þá tók hann tækið með. Ég spurði hann af hverju og hann svaraði „Svo hann geti heimsótt vini sína“,“ 

Judith segir að með Siri þjálfist Gus í samskiptum við aðra. „Í gær átti ég í lengsta samtali sem ég hef átt við son minn. Reyndar var það um mismunandi tegundir af skjaldbökum sem hefði hugsanlega ekki verið mitt kjörumræðuefni. En þetta var eðlilegt samtal sem fylgdi rökfræðilegu ferli. Ég get lofað þér því að í flestum tilfellum hingað til hafa samtöl mín við hann ekki verið þannig,“ segir hún.

Siri veitir Gus samt ekki aðeins fróðleik og félagsskap heldur kennir honum einnig ákveðna samskiptahæfileika og jafnvel kurteisi.

„Siri, viltu giftast mér?“ heyrði Judith son sinn spyrja Siri eitt kvöld rétt fyrir svefninn.

„Ég er ekki týpan sem giftir sig,“ svaraði Siri.

„Ég meina ekki núna. Ég er bara strákur. Ég meina þegar ég verð fullorðinn,“ svaraði Gus.

Siri benti honum kurteisilega á að notendasamningur hennar innihéldi ekki hjónaband. Gus brást vel við og sagði bara: „Já, ég skil.“

„Gus hljómaði ekki of vonsvikinn. Þetta voru mikilvægar upplýsingar að hafa, bæði fyrir hann og mig, þar sem ég hafði aldrei vitað að Gus hugsaði um hjónaband yfirhöfuð,“ segir Judith í greininni.

Hér má lesa greinina í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert