Zuckerberg svaraði spurningum á mandarín

Zuckerberg sést hér ræða við nemendur Tsinghua-háskólans.
Zuckerberg sést hér ræða við nemendur Tsinghua-háskólans. AFP

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, kom mörgum á óvart þegar hann hóf að tala kínversku, eða réttara sagt mandarín, þegar hann sat fyrir svörum kínverskra háskólanema í Peking, höfuðborg Kína. Sumir voru yfir sig hrifnir af uppátækinu á meðan öðrum fannst Zuckerberg hljóma einkennilega.

Fjallað er um þetta á vef breska ríkisútvarpsins. Þar segir, að kínverska fréttaveitan Quartz hafi skrifað að Zuckerberg hefði hljómað „eins og einhver hefði stigið ofan á andlitið hans“ er hann ræddi við nemendurna, en umræðan stóð yfir í um hálftíma. Annar sagði að hann hefði hljómað eins og skýrmælt sjö ára barn sem hefði verið með marmarakúlur í munninum.

Zuckerberg mismælti sig á einum stað, þegar hann hélt því fram að aðeins 11 notuðu facebook appið fyrir farsíma. Þeir eru hins vegar einn milljarður.

Aðrir tóku þessu vel, en einn bloggari skrifaði: „Þessi forstjóri er svo svalur, mig langar helst að gráta.“

Vakti hrifningu flestra

Zuckerberg var nýverið útnefndur í ráðgjafanefnd viðskiptaháskólans í Tsinghua. Í tengslum við það ræddi hann við nemendur á mandarín, og létu viðbrögðin ekki á sér standa.

Þrátt fyrir að flestir hafi verið sammála um að framburður hans væri langt frá því að vera fullkominn þá vakti það hrifingu fólks að hann skyldi reyna þetta. 

Zuckerberg er kvæntur Priscillu Chan, sem er Bandaríkjamaður af kínverskum uppruna. Hann setti sér það markmið árið 2010 að læra mandarín, m.a. til að geta rætt við vini og vandamenn í Kína.

Tim Cook, forstjóri Apple, er einnig staddur í Kína, en hann er að ræða við þarlend yfirvöld um meinta tölvuárás á iCloud-þjónustu fyrirtækisins.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert