Opna vísindi og tækni fyrir fólki

Sprengjugengið að störfum.
Sprengjugengið að störfum. mbl.is/Golli

Uppruni lífsins á jörðinni, eldgosið í Holuhrauni, orka framtíðarinnar og umferðaröryggi eldri ökumanna er á meðal þeirra yfir þrjátíu fjölbreyttu erinda sem verða á boðstólum fyrir gesti á vísinda- og tæknidegi verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands sem haldinn verður á morgun.

Vísindadagurinn er rannsóknaþing sviðsins, sem er með breyttu sniði í ár, þar sem landsmönnum er boðið til sannkallaðrar vísindaveislu.

„Hingað til hefur þetta aðallega verið innanhúsráðstefna fyrir Háskóla Íslands en núna í ár ætlum við að hafa þetta opið og bjóða almenningi að koma og hlýða á erindi. Á vísindadeginum munum við kynna verkefni og rannsóknir sem eru í gangi á verkfræði- og náttúruvísindasviði og fólk þarf ekki endilega að hafa þekkingu á viðfangsefninu til að hafa gagn og gaman af,“ segir Berglind Guðjónsdóttir, verkefnastjóri innri samskipta og markaðsmála á verkfræði- og náttúruvísindasviði HÍ.

Áhersla á að miðla starfinu

Markmiðið er að kveikja áhuga almennings, og ekki síst barna, á vísindum og tækninýjungum. Þannig verða ýmis skemmtiatriði fyrir alla fjölskylduna, þar á meðal verður Sprengjugengið með bás allan daginn, Ævar vísindamaður stendur fyrir uppákomum, hægt verður að fræðast um alheiminn í sérstöku stjörnutjaldi og þá verður vísindasmiðja þar sem yngri kynslóðin getur leikið sér með ýmiss konar vísindadót.

„Við höfum fundið fyrir auknum áhuga á vísindum og tækni í þjóðfélaginu. Við viljum fá fólkið í landinu með okkur og sýna því hvaða flotta starf er í gangi hér innanhúss. Við leggjum áherslu á það að þeim rannsóknum sem eru unnar sé miðlað áfram. Það er í raun alltaf verið að leggja aukna áherslu á þann þátt,“ segir Berglind.

Vísindadagurinn fer fram í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ, á milli kl. 10 og 16 á morgun og er opið öllum.

Heiðraðir fyrir framlag sitt

Þættirnir „Nýjasta tækni og vísindi“ voru á dagskrá Ríkissjónvarpsins frá 1967 til 2004. Örnólfur Thorlacius sá fyrst um umsjón þáttarins, allt til ársins 1974, en þá bættist dýrafræðingurinn Sigurður H. Richter við. Sigurður stjórnaði þættinum svo þar til hann rann sitt skeið.

Þeir Örnólfur og Sigurður verða heiðraðir sérstaklega fyrir framlag sitt til vísindanna á vísinda- og tæknidegi verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands á morgun. Verða gamlir þættir af „Nýjustu tækni og vísindum“ meðal annars sýndir í Öskju á deginum.

Berglind segir að viðurkenningin sé vegna vísindastarfa þeirra almennt en þættirnir hafi þó verið stór hluti af ástæðu þess að tvímenningarnir séu heiðraðir.

„Þetta voru gríðarlega vinsælir þættir á sínum tíma og höfðuðu til breiðs hóps. Það eru núna engir þættir að mér vitandi á svipuðu formi og þessir þættir voru og í raun bara vöntun þar á,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert