Gluggalausar flugvélar eru framtíðin

Svona gæti flug yfir París litið út í framtíðinni.
Svona gæti flug yfir París litið út í framtíðinni. Skjáskot/ YouTube

Flugáhugamenn eru væntanlega í skýjunum með fréttir af hugmyndum um gluggalausar flugvélar sem unnið er að þessa dagana. Gluggaleysið mun ekki koma í veg fyrir að farþegar njóti útsýnisins nema þá síður sé. Hugmyndin er að stórir skjáir sem sýna það sem fram fer utan við flugvélina muni koma í stað glugganna. Þessu greinir The Guardian frá en talið er að slíkar flugvélar geti orðið að veruleika innan tíu ára.

Það er hin breska stofnun Centre for Process Innovation sem stendur að baki hugmyndinni og þróun hennar. Farþegar munu geta kveikt og slökkt á hverjum skjá að vild en þar að auki verður hægt að nota skjáina til að tengjast veraldarvefnum. Hugmyndavinna fyrir flugvélarnar er enn á grunnstigi en hún byggist á tækni sem nú þegar er notuð í farsímum og sjónvörpum. Skjáirnir yrðu settir upp á innanverðum flugvélarbolnum og útsýnið kæmi frá myndavélum sem væru á honum utanverðum.

Ástæðan að baki þessum hugmyndum er fyrst og fremst aukin krafa um léttari vélar. Styrkja þarf flugvélarskrokka sérstaklega til að hægt sé að koma fyrir gluggum og það færir með sér aukna þyngd, án glugga yrðu vélarnar því léttari. Léttari vélar nota minna eldsneyti og eru þannig umhverfisvænni og geta stuðlað að lægri fargjöldum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert