Munaðarlaust svarthol á sveimi

Mynd sem tekin var með Keck II-sjónaukanum á Havaí sem …
Mynd sem tekin var með Keck II-sjónaukanum á Havaí sem sýnir SDSS1133 og það sem talið er vera móðurvetrarbraut þess. W. M. Keck Observatory/M. Koss

Stjörnufræðingar telja sig nú hafa komist að því að það sem áður var talið vera sprengistjarna sé í raun munaðarlaust svarthol sem hefur orðið viðskila við stjörnuþokuna sem það myndaðist í. Ef satt reynist er þetta í fyrsta skipti sem svarthol finnst utan vetrarbrauta.

Hver sem endanlega niðurstaðan verður er fyrirbærið einstakt. Ef um sprengistjörnu er að ræða þá er hér á ferð ný tegund þeirra sem heldur áfram að skína um áratugaskeið. Þær sprengistjörnur sem menn hafa þekkt hingað til brenna út á innan við ári. Ef fyrirbærið er svarthol er það líklega afsprengi tveggja svarthola sem hafa runnið saman og út úr stjörnuþokunum sem þær mynduðust í.

Í fyrstu var talið að fyrirbærið sem gengur undir nafninu SDSS1133 væri sprengistjarna. Það eru sólstjörnur, mun stærri en sólin okkar, sem enda ævi sína á að rifna í sundur í gríðarlega öflugum sprengingum. Stjörnufræðingurinn Michael Koss við þjóðarvísindastofnunina í Sviss komst hins vegar að því að fyrirbærið sást á myndum af stjörnuhimninum allt frá 6. áratug síðustu aldar. SDSS1133 hefur því skinið skært á himninum um áratugaskeið. Engin þekkt sprengistjarna hefur skinið svo lengi.

Möguleg uppspretta þyngdarbylgna

Studdur nýjum gögnum, meðal annars frá SWIFT-sjónauka bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA, segir Koss að líklegra sé að um svarthol sé að ræða. Þó að svartholin sjálf hafi svo mikinn þyngdarkraft að ekki einu sinni ljós sleppur frá þeim eru þau merkilega björt. Þau eru umlukin aðsópsskífu efnis sem hitnar og glóir af völdum þyngdarkrafts svartholsins. Slík svarhol er yfirleitt að finna í hjarta vetrarbrauta.

SDSS1133 virðist hins vegar vera í um 2.600 ljósára fjarlægð frá hjarta vetrarbrautar sinnar, Markarian 177. Það er dvergvetrarbraut í Karlsvagninum í stjörnumerkinu Stór-birni. Rannsóknir sýna að stjörnuþokan hefur gengið í gegnum mikinn óróa.

„Okkur grunar að við séum að horfa á afleiðingar samruna tveggja lítilla vetrarbrauta og svarthola í miðju þeirra,“ segir Laura Blecha við stjörnufræðideild Maryland-háskóla í Bandaríkjunum og meðhöfundur rannsóknarinnar.

Hún rannsakar meðal annars hvernig tvö svarthol sem renna saman verði fyrir afturkasti þannig að þau hrökkvi út úr stjörnuþokum. Menn hafa aldrei fundið slíkt svarthol áður og því væri um meiriháttar uppgötvun að ræða ef sá reynist uppruni SDSS1133.

Koss leiðir líkum að því að þyngdarbylgjur gætu hafa valdið afturkasti svartholsins við samrunann. Albert Einstein spáði fyrir um tilvist slíknar bylgna en þær hafa ekki fundist svo staðfest sé þrátt fyrir að hópur vísindamanna við BICEP-2-verkefnið hafi talið sig hafa fundið þær fyrr á þessu ári. Þyngdarbylgjur eru nokkurs konar gárur í tímarúminu.

„Svarhol sem rekast á eru stærsta uppspretta þyngdarbylgna. Ef SDSS1133 er afsprengi samruna svarthola þá væri það spennandi vegna þess að það þýddi að þessi tegund atburða gæti átt sér stak í dvergvetrarbrautum. Það er mikið af dvergvetrarbrautum í kringum okkur þannig að við gætum mögulega greint þetta,“ segir Koss.

Hér fyrir neðan má sjá myndskeið úr tölvulíkani sem líkir eftir samruna tveggja vetrarbraut og hvernig svarthol í miðju þeirra gæti hafa hrokkið út úr þeim.

Grein um farandsvartholið á vefnum Space.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert