Fá þyngdarlaust kaffi afhent

Geimfarar í Alþjóðlegu geimstöðinni fá afhenta sérhannaða kaffivél um helgina.
Geimfarar í Alþjóðlegu geimstöðinni fá afhenta sérhannaða kaffivél um helgina. AFP

Geimfarar um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni (ISS) á braut um jörðina geta nú um helgina loksins gætt sér á almennilegum kaffibolla. Fyrsta ítalska konan til að fara út í geim ætlar að taka með sér nýja kaffivél sem var sérstaklega hönnuð til að virka við takmarkað þyngdarafl.

Kaffivélin hefur hlotið nafngiftina ISSpresso en það verður hin 37 ára gamla Samantha Cristoforetti sem kemur færandi hendi til geimstöðvarinnar nú um helgina. Vélin var hönnuð af ítalska kaffiframleiðandanum Lavazza í samstarfi við verkfræðifyrirtækið Argotec en það sérhæfir sig í að búa til matvæli fyrir geimferðir. Fyrirtækin segja að vélin notist við geimhylki og að hún virki við lágan þyngdarkraft. Cristoforetti verði ekki aðeins fyrsti ítalski kvenkyns geimfarinn heldur verði hún „fyrsti geimfarinn í sögu landvinninga í geiminum til að bragða á alvöru ítölsku espresso á braut um jörðu“.

„ISSpresso er tækniafrek sem uppfyllir tæknilegar kröfur og ofurströng öryggisviðmið sem ítalska geimstofnunin setur okkur,“ segir David Avino, framkvæmdastjóri Argotec.

Ein mesta áskorunin við að laga kaffi í geimnum er að finna út hvernig á að fá vökva til að flæða almennilega í þyngdarleysi. Þá þurfa stálhlutar vélarinnar að geta staðist gríðarlegan þrýsting.

Cristoforetti, sem einnig er liðsforingi í ítalska flughernum, fer til geimstöðvarinnar ásamt Bandaríkjamanninum Terry Virts og Rússanum Anton Shkaplerov með Soyuz-eldflaug sem skotið verður á loft frá Baikonur-skotpallinum í Kasakstan um helgina. Þar munu þau dveljast fram í maí.

Geimfararnir þrír sem fyrir eru í geimstöðinni verða eflaust fegnir því að geta loksins fengið að dreypa á alvöru ítölsku kaffi þó að þeir svífi hátt yfir jörðinni.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má svo sjá hvernig fólk ber sig að þegar það drekkur kaffi í geimnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert